Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Blaðsíða 83
JÓLGEIRSSTAÐIR
83
Odda.7 Nú var Helgi, bróðir Hrafns, vísast tengdasonur Jólgeirs
og því fráleitt, að Hrafn hefði selt jörðina undan honum eða af-
komendum hans. Ef Brynjúlfur frá Minna-Núpi hefir ekki slengt
saman tveimur óskyldum sögum, þá virðist sagan hjá honum, eink-
um endahnykkurinn, beinlínis benda til þess, að hún sé sögð til
dýrðar Oddastað einum.
I sóknarlýsingu sinni segir séra Brynjólfur enn fremur: — „Jól-
geirsstaðir, á að gizka 200 faðmar austur-landnorður frá Seli, er
gömul eyðijörð blásin í sand; þar bjó Jólgeir landnámsmaður,
bróðir Ráðorms. í munnmælum er, að hann hafi þar dáið kerlingar-
dauða og verið heygður austur á ásnum; þar sjást þó lítil merki
til; áður en hann dó, á hann að hafa borið gullkistu sína í Gull-
kistudý þar undir ásnum og lagt stóra hellu yfir“—8
Vigfús Guðmundsson, bóndi í Seli, segir þessa sögu nákvæmlega
eins, en bætir við: „Gullkista Jólgeirs átti að koma upp á yfirborð
dýsins sjöundu hverja Jónsmessunótt, en enginn hefir haft þolin-
mæði til að standa svo lengi á verði. Einhverju sinni í fyrndinni varð
smaladreng einum frá Seli gengið framhjá dýinu á Jónsmessunótt.
Var kistan þá uppi og opin. Sýndist honum lauf ein í henni. Tók
hann nokkur af rælni og stakk í vasa sinn. En um morguninn, er
hann sýndi fólkinu þau til sannindamerkis, voru þau orðin að pen-
ingum, á stærð við tveggja krónu pening, en enginn kunni að meta
gildi þeirra. Ekki sáust heldur nein merki kistunnar, þegar að var
gætt“.
Og enn segir Vigfús: „Uppi á ásnum, suðaustur af sauðahúsunum
frá Seli, en vestur af Breiðaviki, er Haugsholt, og efst á því er ein-
kennileg þúfa, er heitir Haugsholtsþúfa. Undir þeirri þúfu átti Jól-
geir að hafa grafið peningakistil sinn. Eru sagnir um, að tvisvar
hafi verið grafið í þúfuna, en í bæði skiptin orðið að hætta við það,
sakir þess, að þá sýndist bærinn á Seli allur í ljósum loga. Þess sést
glögg merki, að þarna hefir verið grafið, því laut er við þúfuna, eða
í henni, enn þann dag í dag“.
7 Landnáma, útg. 1909, bls. 208.
8 1 fornleifaskýrslu sinni frá 1818 hafði séra Brynjólfur áður sagt frá Jólgeiri
á þessa leið: „Fyrir austan bœinn Sel er sagt að Jólgeir, sem fyrstur bjó á
Jólgeirsstöðum (sem nú eru eyddir af sandfoki eftir spásögn hans), eigi að
vera heygður. Peningakistu sinni á hann að hafa sökkt niður í fen þar fyrir
austan, en heitið, að sá drengur, sem kallaður yrði eftir honum í skírninni,
skyldi finna hana aftur og njóta vel. Af þessum sökum ætluðu hjón nokkur
(á Áshóli) fyrir nokkrum árum að láta son sinn ungan heita Jólgeir, en prest-
urinn, sem þá var, en nú er dáinn, kom í veg fyrir það, af því að hann taldi
það heiðið nafn".