Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1991, Blaðsíða 77
FORNLEIFAR Á SLÓÐUM STJÖRNU-ODDA
81
Björn M. Ólsen leiddi getur að því að Oddi hafi verið faðir Styrkárs
Oddasonar sem var lögsögumaður 1171-80 og getið er í Sturlunga sögu.19
Sigurður sonur Styrkárs bjó í Múla um 1180-90.20
Sumir fræðimenn hafa reynt að nota tölur og upplýsingar um sólargang
sem fram koma í Odda tölu til að tímasetja, hvenær þær athuganir hafi
verið gerðar sem á er byggt.21 Þessi hugmynd byggist á því að sólargangur
tekur reglubundnum breytingum sem reikna má út fram og aftur í tímann.
Ef unnt væri að beita henni hér fengist tímasetning á ævi Odda óháð að-
ferðum sagnfræðinga og textafræðinga. En því miður eru upplýsingar Odda
tölu með ýmsum hætti svo ónákvæmar að þessi aðferð kemur ekki að haldi.
Gildir þá einu þótt mætir fræðimenn hafi ætlað sér að nota hana.22
Það er því ekki margt sem við vitum með vissu um persónu og hagi
Stjörnu-Odda. Þótt fræði hans verði ekki notuð til að tímasetja ævi hans
bendir ýmislegt annað til þess að hann hafi verið uppi á tólftu öld, trúlega
fyrri partinn. Við getum gengið út frá að hann hafi verið vinnumaður hjá
Þórði í Múla og meðal annars haft þann starfa að róa til fiskjar frá Flatey.
Hann hefur þó trúlega ekki verið aðeins venjulegur vinnumaður, heldur
kann hann að hafa mægst við húsbónda sinn og ætt hans hafist til meiri
virðinga en títt er um vinnumenn. Hann hefur verið þekktur maður á sinni
tíð og síðar fyrir fræðastörf sín.
Stóru orðin sem höfð eru um rímkænsku Odda í textunum hér á undan
eru ásamt öðru góð rök fyrir því að eigna honum að minnsta kosti það að
hafa dregið saman efnið í Odda tölu. Aðrir kunna þó að hafa lagt fram
sinn skerf og þá ef til vill byggt á reynslu og þekkingu sem hafði safnast
saman í tímans rás, til dæmis í tengslum við siglingar.
Odda tala hefur löngum vakið athygli manna og forvitni. Öll umgerð
hennar er á þann veg að hún og efni hennar hafi orðið til hér á landi, og
ekki er vitað um neinar hliðstæður í miðaldatextum. Talan er í þremur
köflum og fjallar sá fyrsti um það, hvenær sólstöður verði á sumri og vetri,
fyrst í hlaupári og síðan í þrjú ár þaðan í frá þar til hringurinn lokast og
sagan endurtekur sig. Annar kaflinn lýsir því hversu „sólar gangur vex að
sýn" frá vetrarsólstöðum til sumarsólhvarfa og „þverr" síðan til næstu
vetrarsólhvarfa. í þriðja kafla er gerð grein fyrir því, hvernig stefnan til
dögunar og dagseturs breytist yfir árið. Hér verður ekki fjallað nánar um
þessa kafla hvern um sig enda hefur það verið gert annars staðar, sbr.
fyrstu neðanmálsgrein.
19. Björn M. Ólsen, 1914,3.
20. Þórhallur Vilmundarson, 1991, ccxiii; Sturlunga saga 1,1988,123-5.
21. Þorkell Þorkelsson, 1926, 64; Beckman, 1934,18; sbr. Þórhall Vilmundarson, 1991, ccxii-ccxiii.
22. Þorsteinn Vilhjálmsson, 1991, öll greinin.