Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1991, Blaðsíða 124
128
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
henni væri ætlað að vera leiðisfjöl. En það merkir þó nánast, að hér í garð-
inum hvíli líkami séra Olafs Þorlákssonar.
Nánast ekkert virðist varðveitt af skjölum frá Þverárkirkju í Þjóðskjala-
safni og í hinni einu vísitasíu, sem finnst frá þessum tírna, frá árinu 1786,
er grafskriftarinnar ekki getið.
Síðan gerist það einhverra orsaka vegna, að grafskriftin er tekin úr kirkj-
unni og til næsta veraldlegra þarfa og sést hér enn einu sinni hin skeyting-
arlausa og óvægna meðferð kirkjulegra gripa á síðari öldum. Sennilegast
er, að þetta hafi gerzt er núverandi bær á Þverá var byggður á árunum
1848-1852. Þá hefur þurft mikinn trjávið, svo vandaður og vel viðaður sem
bærinn er, og líklegast þá gripið til hvers eins, sem fyrir hendi var. Nær
hundrað ára gamallar grafskriftar yfir löngu látinn prest, sem nú var öllum
gleymdur, hefur ekki þótt þörf í kirkjunni lengur, enda mun séra Olafur
ekki hafa átt afkomendur þar nyrðra og því fáir til að halda uppi minningu
hans.
Hitt var einnig, að við endurbyggingu kirkna var oft og tíðum selt það
sem hægt var af viðum hinnar eldri kirkju og annað það, sem ekki þótti
brúkandi í hina nýju. Oft var jafnvel skipt um prédikunarstóla og ölturu
og því er hætt við, að hlutir svo sem gamlar grafskriftir hafi þótt fornfálegir
og lítt nauðsynlegir í nýja kirkju og því verið nýttir í annað eða seldir með
öðru timburbraki.
Þessi ágæti gripur, grafskrift séra Ólafs Þorlákssonar, leiðir óðara hug-
ann að því, hver kunni að hafa gert hann. Slík spurning vaknar oft þegar
um úrvalsgripi er að ræða, en oftast verður fátt um svör og maðurinn bak
við listgripinn óþekktur. Þetta er hið sama og með margt af bókmenntum
okkar, að höfundur lét sín sjaldan getið í hinum skrifaða texta og nafn hans
gleymdist því fljótt.
En hér ber svo við, að við getum líklegast rennt beint á smiðinn og
skurðmeistarann og þarf ekki um víðan völl að skyggnast. Hann er svo að
segja við höndina.
A þessum tíma, um miðja 18. öld, voru varla margir Islendingar, sem
fengust bæði við skurðlist og málverk. Að vísu var fjöldinn allur af trésker-
um víða um landið og verk þeirra alkunn, svo sem kistlar, rúmfjalir, skápar
og öskjur. En málaðir hlutir eru sjaldgæfari og hér er ekki á ferðinni
óbreyttur íslenzkur alþýðumyndskeri heldur æfður smiður og málari. Það
fer vart milli mála, að þessi einfalda en framúrskarandi vel gerða grafskrift
sé verk Hallgríms snikkara Jónssonar í Kasthvammi, nágranna séra Ólafs
síðustu árin.
Hallgrímur var fæddur 1717 að Naustum við Akureyri, sonur Jóns
bónda þar Hallgrímssonar og Ólafar konu hans Jónsdóttur. Hann lærði