Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1991, Blaðsíða 130
134
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
hann, ómetanlegar heimildir fyrir slíkar rannsóknir á seinni tímum. Sagn-
fræðingar hafa sýnt þessu rannsóknarsviði nokkurn áhuga og hafa ýmsar
greinar birst um staðbundnar rannsóknir af þessu tagi. Ritaðar heimildir
ná þó ekki allt aftur til upphafs byggðar í landinu og eru þar að auki
brotakenndar framan af, eins og glöggt kemur fram í rannsókn Sveinbjarn-
ar. Það er þar sem framlag Sigurðar Þórarinssonar á sviði gjóskulagafræði
hefur komið að svo miklu gagni. Aðferð hans byggist á því að nota svoköll-
uð leiðarlög gosösku í jarðvegi til að tímasetja rústir með. Virðist þessi að-
ferð ákaflega hentug til að kanna byggðaleifar á stóru svæði, þar sem
heppileg gjóskulög í þeim tilgangi er að finna, með tiltölulega litlu erfiði,
eða eins og Sigurður segir sjálfur í grein um rannsóknir byggðaleifa í af-
dölum á Norðurlandi, þar sem þessum aðferðum var beitt: „Það þarf í
sumum tilvikum ekki að grafa nema eina smáholu, sem krefst minna en
hálfrar stundar vinnu, til þess að komast að því hvort tóft er eldri en t.d.
1104 eða 1362.7,1
A rannsóknarsvæði Sveinbjarnar var það hið svonefnda H-1158 lag,
gjóska sem talin er hafa myndast í Heklugosi árið 1158, sem að mestum
notum kom til að gera fljótlega könnun á aldri byggðaleifanna. Auk Sig-
urðar kom til samstarfs Guðrún Larsen jarðfræðingur, nemandi hans og
arftaki í gjóskulagarannsóknum, og gerði nákvæma úttekt á öllum gjósku-
lögunum á svæðinu.2 Aldursákvörðun gjóskulaganna er byggð á efna-
greiningu (sem segir til um upprunastað), útreikningum byggðum á
þykknunarhraða jarðvegs og rituðum heimildum, aðallega annálum sem
geta um eldgos. Einnig voru gerðar tvær geislakolsaldursgreiningar (C-14)
á kolum úr gólfskán tveggja rústa sem þaktar höfðu verið af H-1158
gjóskulaginu. Var aldur beggja hærri en gjóskufallsártalið.
Rit Sveinbjarnar ber þess sterk merki að það er sagnfræðingur sem skrif-
ar. Kemur þetta bæði fram í því mikla rými sem heimildarýni fær í ritinu,
og ekki síður í lýsingu höfundar á því hvað fornleifar og rannsóknir þeirra
séu, það er að nútímafornleifafræði sé „skilgetið afkvæmi nýrrar þekkingar
og landvinninga á sviði náttúruvísinda og sagnfræði" (bls. 7). Virðist þessi
lýsing einum um of bundin þeim þáttum sem eru aðaluppistaða þeirrar
rannsóknar sem hér um ræðir, en alveg sleppt að hafa með í lýsingunni
þann þátt fornleifarannsókna sem á ensku nefnist material culture, eða rann-
sókn mannvistarleifa sem slíkra. Túlkun þeirra er oft það eina sem forn-
leifafræðingurinn hefur að byggja á, t.d. þegar um er að ræða fornleifar frá
forsögulegum tíma, þar sem ritaðar heimildir skortir algerlega.
Byrjað er á að gera nákvæma úttekt á ritheimildum um byggð á rann-
sóknarsvæðinu, og m.a. farið út í fræðilegar vangaveltur um aldur, upp-
runa og tengsl heimildanna. Niðurstaða þessarar úttektar verður sú að