Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1948, Blaðsíða 148
151
Schiibeler var hin algengasta tegund á Norðurlöndum. En
vitanlega verður ekkert sagt um afbrigði þess.
Rúgur kemur fyrir í einum tveimur staðaheitum, en eins
og bæði B. M. Ó. og Þ. Th. hafa bent á, er það engin full
sönnun rúgyrkju, þótt mér þyki sennilegra að svo sé, þar
sem bæði heitin eru á eyjum á því svæði, sem kornyrkjan
var algeng, en einmitt það, hve rúgyrkjan var sjaldgæf, gat
sérstaklega gefið tilefni til nafnanna.
Þá hefir Sigurður Þórarinsson fundið hafrafrjó í jarðvegs-
sýnishornum í Þjórsárdal.1) Sá fundur er harla merkilegur,
og sýnir ásamt fleira úr þeirri rannsókn, hversu margt vér
gætum lært um búnaðarsögu og gróðrarsögu landsins, ef ná-
kvæmar frjógreiningar yrðu gerðar víðs vegar á landinu.
Um ræktunaraðferðirnar verður fátt sagt. Heimildirnar
eru svo fábrotnar og slitróttar um það efni. Það er þó ljóst,
að akrarnir hafa verið girtir, enda voru forfeður vorir ötulir
við garðahleðslu. í Njálu er talað um akurgerðarmann. Er
þar sennilega átt við mann, er bæði kunni til sáðverks og
garðahleðslu. Auðsætt er, að oft hafa menn haft akra sína í
hólmum og eyjum. Hefir það vafalaust verið til að spara
garðahleðslu, en kann einnig að hafa verið vegna þess, að
í sjávareyjum var minni hætta næturfrosta en á landi og
þaratekja létt. Misbrestur hefir þó verið farinn að verða á
girðingum um ræktarlönd manna, sbr. réttarbót Eiríks
konungs.
Til undirbúnings sáningu hafa menn hlotið að plægja
landið eða pæla. Trúlegt er, að meðan mikill hluti landsins
var skógi vaxinn, hafi menn brennt skóginn áður en land
var tekið til ræktunar túns eða akra, þótt vafasamt sé, að
um verulega sviðurækt hafi verið að ræða. Er þó ekki ó-
sennilegt, að hún hafi átt sér stað, a. m. k. á landnáms- og
söguöld.
Plógur sá, arðurinn, er menn notuðu til forna á Norður-
1) Tefrologiska Studier, bls. 163 og áfram.