Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1948, Blaðsíða 158
161
landbúnaðarins, og því ekki að furða, þótt Arngrímur geri
lítið úr henni.
E£ vér berum saman vitnisburðina fyrir og eftir 1300,
sjáum vér, að vitnisburðir 14. aldarinnar eru nokkru fleiri
en á tímabilinu 1150—1300. En þess er að gæta, að forn-
bréfunum fer mjög að fjölga eftir 1300, og er það eitt nægi-
leg skýring, þótt fyrra tímabilið hins vegar njóti vitnisburða
Sturlungu og Biskupa sagna. Um vitnisburði kirknamál-
daganna er það að segja, að óvíst er, að kornyrkjan hafi
haldizt jafnlengi og gjöldin eru ákveðin í máldögunum.
Forráðamenn kirkna hafa verið tregir að fella niður ítök,
þótt einskis virði væru orðin. Má sjá það á því, að enn skuli
vera tilfærð mjölafgjöld af jörðum í byrjun 17. aldar. Af
þessum sökum verður erfiðari samanburðurinn um það,
hvort kornyrkjunni hafi hnignað eða hún staðið í stað þetta
tímabil. Ein fyllsta heimildin frá þessu tímabili er Kirkna-
máldagasafn Wilkins biskups í Skálholti frá 1397. Af henni
sést, að þá eru niður felld allmörg mjölafgjöld og ítök úr
hinum fyrri máldögum, svo sem akuryrkja í Effersey og
Akurey við Reykjavík, og að Syðri-Reykjum í Mosfellssveit.
í eignaskrám Viðeyjarklausturs eru mjölgjöld og akurítök
að Eiði, Elliðavatni og Húsatóttum felld niður 1395. Þetta
gæti allt til þess bent, að á seinni hluta 14. aldar hafi akur-
yrkjunni verið tekið að hnigna verulega, og gætu það verið
afleiðingar illærisins 1389. En þess er þó að geta, að sá vitnis-
burður, er getur mestrar kornyrkju hér á einum stað, að
Görðum á Álftanesi, er einmitt frá árinu 1397. Akuryrkjan
á Útskálum virðist einnig hafa staðið í blóma á seinni hluta
14. aldar. Merkilegt er og að athuga um kornyrkjuna að
Teigi í Fljótshlíð. Þar á kirkjan 2 sáld korns niðurfærð 1367.
Tuttugu árum síðar er það komið niður í eitt sáld, en í
Wilkins máldaga hefir það aukizt á ný í 2 sáld. Þetta virðist
mér benda til, að hæpið sé að álykta um verulega hnignun
kornyrkjunnar á 14. öld út frá Wilkins máldaga einum
ll