Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1948, Blaðsíða 159
162
saman. Ég hygg miklu fremur, að kornyrkjan hafi haldizt
með líkum hætti allt þetta tímabil um Suður- og Vestur-
land. Hún hefir að vísu orðið fyrir áfellum, en rétt við aftur,
og enn hafi ekki verið um verulega afturför að ræða, fyrr en
þá undir aldamótin, eftir hallærin um 1380.
Þriðja tímabilið er 15. öldin. Þá er þegar sýnileg breyting
á vitnisburðunum, svo að á móti 28 vitnisburðum 14. aldar
eru nú einungis 9 eftir, og um einn staðinn, Skálanes, er
beinlínis tekið fram, að akurinn sé í tröð. Á 5 af þessum
stöðum halda vitnisburðirnir áfram eftir 1500. En hér ber
þess að gæta, sem fyrr er sagt, að ákvæðin geta hafa haldizt
lengur í máldögunum en kornyrkjan. Væri því ekki öðru
til að dreifa en þessum vitnisburðum, mætti álykta, að korn-
yrkjan hefði að mestu lagzt niður um 1400. Enda voru þeir
B. M. Ó. og Þ. Th. báðir þeirrar skoðunar, að svo hafi verið.
En síðan þeir rituðu um kornyrkjuna, hafa tvær merki-
legar heimildir komið fram um kornyrkjuna á 16. öld. Eru
það fógetareikningarnir frá Bessastöðum og jarðaskrá
Bjarnar Guðnasonar, sem fyrr var getið. í jarðaskrá Bjarnar
er getið um mjöl- eða ölgjald af 6 jörðum í Barðastrandar-
sýslu, en ekki er fullvíst, hvort það hefir goldizt í þeim
vörum. Hins vegar sýna fógetareikningarnir tvímælalaust,
að þá voru gjöldin enn greidd í umræddum vörum, þótt
nokkur áraskipti væru að, hve vel þau heimtust. Þá má og
minna á frásögn Hannesar biskups um Staðarstað, sem ég
sé enga ástæðu til að efast um. Loks er enn sögn Jóns Egils-
sonar í Biskupaannálum um jarðir þær, er konungur tók
frá Skálholtsstól á Suðurnesjum 1563. Segir Jón, að í tíð afa
síns, 1531—1552 hafi stólnum verið goldnar af þeim 13
vættir fiska til annars hundraðs, en mjöltunnur og kúgildi
að auki.1) Með hliðsjón af fógetareikningunum er engin
ástæða til að efa, að hér sé rétt hermt. Verður þá ljóst, að
um miðja 16. öld hefir kornyrkja verið stunduð víða við
1) Safn til sögu íslands I, bls. 105.