Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1948, Blaðsíða 149
löndum, var klunnalegt og þungt verkfæri. Höfðu menn
uxa til að draga hann. Á fáeinum stöðum, einkum í hinum
eldri heimildum, er getið um arður og arðuruxa. Þannig lét
Hjörleifur Hróðmarsson þræla sína draga arðurinn með
uxanum. í vitnisburðum þeim, er raktir eru hér að framan,
er arðuruxa getið á örfáum stöðum, og arningu (þ. e. plæg-
ingu) er talað um í Viðey. En allt er þetta í hinum eldri
heimildum. Þegar fram líða stundir, er arðuruxa hvergi
getið né arðra, og eru þó til fjöldamargar nákvæmar eigna-
skýrslur kirkna og annarra búa frá því fyrir siðaskipti. Þykir
mér það benda til, að arning hafi snernma lagzt niður, og
akrarnir verið stungnir upp. Hins vegar eru í hinum fornu
Rúalögum ákvæði, er segja, að það sé meðalmanns dagsverk
að velta (þ. e. stinga upp) fjórðungslandi, og er það, samkv.
útreikningi B. M. Ó. 49 ferhyrningsfaðmar.
Ekki verður heldur með vissu sagt neitt um áburð í akr-
ana. Líklegt má þó telja, að víðast hafi menn borið í þá
húsdýraáburð, þótt ganga megi að því vísu, að hann hafi
verið af skornum skammti og stundum vafalaust enginn
(sbr. síðar um tröðina). í tveimur vitnisburðum hér að
framan, er talað um þara til áburðar, á Loftsstöðum og í
Reykjanesi. Má telja víst, að svo hafi víðar verið við sjávar-
síðuna, ekki sízt, þar sem akrar voru í eyjum. Þá er og ljóst,
að vatni hefir verið veitt á akra til frjóvgunar þeim. Þar til
benda ákvæði Grágásar um vötn, er menn eiga saman, og
annar vill veita á engi sín eða akur, en hinn vill eigi leyfa.
Eru gefnar reglur um, að vatni skuli skipta, eða ef svo er
lítið, að ekki sé hægt að skipta, hafi sína viku hvor.1) Ákvæði
þessi haldast óbreytt í Jónsbók. Hér að framan er þess getið
um Hvol í Fljótshverfi, að þar sé sældingsland í veitu, og
skal sá, er býr á Kálfafelli, taka vötn upp að sínum hlut, þ. e.
á móts við ábúendur Hvols. í lýsingum Brynjólfs Jónssonar
á fornum akurgerðum, getur hann á tveimur stöðum um
1) Grágás II, 97.