Menntamál - 01.12.1949, Blaðsíða 28
150
MENNTAMÁL
Enda þótt foreldrar séu allir af vilja gerðir, eru kjör
sumra afbrigðilegra barna svo og heilbrigðra systkina
þeirra hin ömurlegustu. Enginn veit, hve mörg þessara
barna eru námshæf á einhverju sviði. Hæfileikum þeirra
er ekki sinnt. Þau vaxa upp til andlegs vesaldóms, í algeru
þekkingar- og kunnáttuleysi.
Litlu meiri er þekking okkar á afbrigðilegum börnum,
skólahæfum. Frá sjónarmiði skólans lítum við fyrst og
fremst á hina rýru námsgetu þeirra, finnum þau óhæf til
þess að fylgjast með í venjulegu námi, en gerum okkur
litla grein fyrir þeim ástæðum, sem valda þessari vöntun
hjá hverju einstöku barni. Slík börn eru í hverjum skóla,
og kennarar finna vel erfiðleikana, sem á því eru, að þau
stundi svipað nám og heilbrigð börn. Áður tók skólinn
og raunar allur almenningur einungis neikvæða afstöðu
til slíkra barna. Sjónarmiðið var einhæft og þröngt: Náms-
geta, námsafrek. Sá, sem ekki stóðst fyrir því, hann var
auli, bjáni. Hann fór í úrkastið. Nokkuð eimir enn eftir af
þessu mati, en smám saman þokar það þó fyrir vaxandi
skilningi á fjölbreytni afbrigðilegra barna í skólum.
Þessi hópur er ekki fámennur. Samkvæmt athugun, sem
gerð hefur verið í barnaskólum Reykjavíkur, hafa 5—6%
barnanna svo takmarkaða námsgetu, að þeim er venjulegt
skólanám ofvaxið, svo fremi hinum algengu kennsluaðferð-
um er beitt einvörðungu. Við megum því gera ráð fyrir
nálægt 300 barna hópi, sem sækir skylduskóla höfuðstaðar-
ins, en getur ekki fylgzt með í venjulegu námi.
Líka þennan hóp mynda margvísleg og innbyrðis ólík
börn, og fer því mjög fjarri, að hið sama eigi við um þau
öll. Nánari rannsókn myndi leiða í ljós, að takmörkun
námsgetunnar orsakast af ýmsum líkamlegum eða sál-
rænum göllum, sem barnið sjálft ræður ekki við. Oft stafar
námstregða af áfalli, sem barnið hefur orðið fyrir, t. d.
í fæðingu, vegna sjúkdóms eða af slysförum. Oft kemur
veila barnsins fram sem taugaveiklun, slen, vanmáttar-