Jörð - 01.08.1931, Blaðsíða 73
Jörð]
ANDREA DELFÍN
71
sæti og horfði í gaupni sér. Dóttur sína hafði hún sent I
rúmið; en grasker tvö hafði hún hjá sér á pallinum og
ætlaði að flysja þau, áður en hún færi í háttinn. Fram að
þessu höfðu margskonar ímyndanir og hugmyndaflug
haldið henni frá því. Hendurnar hafði hún í kjöltunni, en
hallaði höfði að handriðinu; það var ekki í fyrsta sinn,
sem henni hafði runnið í brjóst í þeim skorðum.
Ekki varð samt fyllilega úr blundi fyrir henni í þetta
sinn. Hrökk hún allt í einu upp við þrjú hæg högg á úti-
dyrnar. »Guð sé oss næstur!« varð henni að orði og stóð
upp, en hreyfði sig annars ekki. »Hvað er um að vera!
Ætli mig hafi verið farið að dreyma? Ætli það geti verið
hann?«
Hún lagði við hlustirnar. Aftur var dyrahamrinum
drepið á dyrnar. »Nei«, tautaði hún þá, »Orsó er það
ekki; hann barði öðruvísi. Og ekki er það lögreglan. Bezt
að gá, hver það er, sem Drottinn sendir«. Að svo mæltu
fór hún niður, döpur í bragði, og spurði hver kominn
væri.
Rödd fyrir utan segir, að úti standi ókunnugur maður,
er sé í húsnæðisleit; hafi hann heyrt vel af húsi þessu
látið; voni, að sér auðnist að njóta lengi næðis í því, og
að húsfreyja verði ánægð með hann. Allt var þetta hæ-
versklega orðað á góðri Feneysku,*) svo að frú Gíóvanna
hikaði ekki við að opna, þó að áliðið væri. útlit gestsins
brást ekki vonum hennar. Eftir því sem henni sýndist í
rökkrinu, var hann í sæmilegum dökkum klæðum, svo
sem hæfa þóttu manni úr fátækari borgarastétt; undir
handlegg sér bar hann leðurtösku, og stóð þarna hógvær-
legur með hattinn í hendinni. Einungis þótti húsfreyju
andlit hans nokkuð óvenjulegt. Virtist það í einu unglegt
og ellilegt; skeggið var dökkjarpt, ennið hrukkulaust,
augun snör; aftur á móti var munnsvipurinn taugalegur,
málfærið þreytulegt og snögga hárið hélugrátt; og stakk
þetta í stúf við það, sem unglegt var í andlitinu.
»ójá, frú«, mælti hann; »ég hefi víst verið að raska
*) Itölsk mállýzka.