Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Side 7
FRÁ RITNEFND
Þegar tímarit Kennaraháskóla íslands, Uppeldi og menntun, kemur nú út í fimmta
sinn er vel við hæfi að líta yfir farinn veg og hugleiða hvort tímaritið hafi orðið sá
vettvangur fræðilegrar og hagnýtrar umfjöllunar sem stefnt var að. Sérstaða tíma-
ritsins felst einkum í því að þar eru birtar viðameiri rannsóknar- og fræðigreinar en
í öðrum íslenskum tímaritum um menntamál. Þar sem tímaritið kemur aðeins út
einu sinni á ári er það óhentugt til umræðu um dægurmál sem tengjast uppeldi og
menntun, en því meira er lagt upp úr vandaðri umfjöllun sem stenst tímans tönn,
enda eru allar greinarnar ritrýndar af sérfræðingum á viðkomandi sviði.
Sá fjöldi fræðilegra greina sem ritnefnd hefur borist á hverju ári ber með sér að
full þörf var á tímariti sem þessu. Þótt ekki sé fyllilega vitað um lesendahóp tíma-
ritsins er ljóst að margir kennarar og kennaranemar lesa greinarnar og ræða efni
þeirra, en greinarnar hafa verið vel nýttar sem lesefni fyrir kennaranema og einnig
fyrir kennara á námskeiðum eða í framhaldsnámi. Hafa þær reynst afar dýrmætar í
því samhengi.
Ohjákvæmilega vakna spurningar um hversu vel boðskapur greinanna kemst
til skila til hins almenna kennara. Sum störf eru þess eðlis að þar fléttast eðlilega
saman daglegt amstur og lestur fræðilegs efnis sem tengist starfinu. Því miður er
því þannig farið með kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi að lítið svigrúm gefst
fyrir lestur á fræðiefni og vangaveltur um boðskap rannsókna og kenninga. Þau
verkefni sem leysa verður frá degi til dags eru það krefjandi að flestum kennurum
finnst þeir aldrei sinna þeim nógu vel. Margar greinar sem birtast í tímaritinu
Uppeldi og menntun hafa heldur ekki beint hagnýtt gildi fyrir þessa kennara, þeir
geta t.d. ekki nýtt þær við undirbúning kennslu. Samt sem áður geta þær verið
fróðlegar aflestrar og vonandi einnig grundvöllur umræðna um menntun og skóla-
starf, ekki aðeins á námskeiðum heldur einnig á kennarastofum, enda eru grein-
arnar valdar með hliðsjón af því að þær eigi erindi til kennara og annarra sem sinna
uppeldisstörfum.
í mörgum þeirra greina sem birtast að þessu sinni er tekist á við málefni sem
hafa verið ofarlega á baugi í þjóðfélags- og skólamálaumræðu á seinustu misserum.
Má þar nefna grein Sigrúnar Aðalbjarnardóttur og Kristjönu Blöndal um niður-
stöður rannsóknar á tóbaks- og hassneyslu unglinga og er sú umfjöllun í beinu
framhaldi af grein sem birtist í síðasta árgangi tímaritsins um áfengisneyslu
unglinga. Hugtökin gæðamat og gæðastjórnun eru skoðuð í tveimur greinanna.
Birtar eru niðurstöður rannsókna á tengslum heimila og skóla, þar sem þessi tengsl
eru skoðuð í sögulegu ljósi.
Sumar greinarnar eru um málefni sem tengjast kennslu með beinum hætti.
Fjallað er um sérkennslu, móðurmálskennslu og námskeið í kennaranámi þar sem
áhersla er lögð á það hlutverk kennara að stuðla að jafnrétti kynja. Þórir Þórisson
greinir frá rannsókn sinni á áhrifum mismunandi kennsluaðferða á árangur í
tónmenntakennslu á framhaldsskólastigi. Sú grein er góð hugvekja um þau ólíku
hlutverk sem kennarinn gegnir eftir því hvaða kennsluaðferðum er beitt.
5