Morgunn - 01.12.1971, Blaðsíða 25
OPINBERANIR EMANTJELS SWEDENBORG
103
að séu aðal inntak margra hinna miklu ritverka Swedenborgs,
en aðgengilegustu framsetningu þeirra mun vera að finna í
áðurnefndri bók hans, er Jón A. Hjaltalín cand. theol. þýddi,
Vísdómur Englanna. — 1 stutu máli eru þessar kenning-
ar eitthvað á þessa leið: Hin innsta vera Guðs er ótakmark-
aður kærleikur; birting Hans í veruleikanum á sér stað fyrir
óendanlega vizku. Hinn guðdómlegi kærleikur er hið óskap-
aða og óforgengilega lífsafl alheimsins, sem býr sér birtingar-
form fyrir tilverkan vizkunnar, eða skynsemisþáttarins, en
lokamarkið er sköpun eða framspretta hins góða, gæðanna eða
notagildisins. Af Guði er í heimi andans framgengið heilagt
ljóshvel, er birtist þar sem sól, en hiti hennar er hinn guðlegi
kærleikur og ljós hennar er hin heilaga vizka. — Af þessari
sól hins andlega heims er fyrir lögmál tilsvörunar sól hinnar
n -&y
efnislegu veraldar fram sprottin. Sól hins andlega heims, sem
er uppspretta kærleiks og vizku, er hin eiginlega lind lífsand-
ans sjálfs, sem er kærleikurinn, sem birtist oss sem tilfinning-
ar anda vors; en þessi sól hins andlega heims innblæs lífsafli
sínu í sól hins veraldlega heims, en hún veitir hinu efnislega
lífssviði yl sinn og lífsanda. Þar sem þetta er svo, er hin and-
lega sól móðir lífsins og þannig lifandi, en hin síðari er aðeins
dauð endurspeglun hennar.