Uppeldi og menntun - 01.01.2010, Page 101
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 19(1–2)/2010 101
H Ja lt i J Ó n Sv e i n S So n o g Bö r KU r H a n S en
Tveir þátttakenda voru greindir í grunnskóla með ofvirkni og athyglisbrest, sem háði
þeim í námi og starfi, auk þess sem ein stúlknanna kvartaði undan því að hafa ekki
getað einbeitt sér, og það hafi tafið fyrir henni í námi. Þá væri hún lesblind en hefði
ekki fengið greiningu fyrr en hún var komin í VMA.
Annar viðmælandi, piltur, lýsti einkennunum þannig:
Óróleiki. Ég átti það til að stríða öðrum. Truflaði kennslu stundum. Reyndi oft að
sleppa við að fara í tíma, eins og íþróttir og sund, ég mætti rosalega lítið í það. Ég var
settur á rítalín en tók það ekki nema í hálfan vetur eða svo, ég varð bara allt of sljór.
Hinn þriðji lýsti þessu svo:
Þetta var ástæðan fyrir því að ég átti lítið af vinum, ég var bara einn, hékk bara heima
í tölvunni og þannig. Ég held að það hafi ekki bara verið rítalínið en það átti sinn
part í þessu. Ég á erfitt með að lesa vegna athyglisbrestsins. Maður fékk meira að
segja stundum svitakast þegar ég þurfti að sitja kjurr og lesa til dæmis, og stundum
í prófum. Þetta voru alveg vandræði hjá mér. Ég þurfti jafnvel að taka aukabol með
mér í skólann, ég svitnaði svo.
Ein stúlknanna var aldrei greind með lesblindu eða athyglisbrest þó svo að hún hefði
átt í erfiðleikum með lestur auk þess sem hún kvaðst jafnframt hafa átt erfitt með að
einbeita sér. Hún var aftur á móti áræðin og fann sínar eigin leiðir til þess að ná settu
marki:
Ég sagði til dæmis sálfræðikennaranum að ég þyrfti að glósa á tölvu. Svo sagði ég
honum að á meðan fyrirlestur er, þegar ég er búin að skrifa og ég er að lesa til þess
að halda athyglinni þegar ég er að hlusta, þá finnst mér gott að vera að gera eitthvað.
Ég er ekki að krota en ég er að leggja kapal. ,,Ég tek ekkert eftir kaplinum, þetta er
bara til þess að ég fari ekki að hugsa um allt annað og missa alla athyglina, “ sagði
ég við hann.
Niðurstöðurnar bera með sér að stór hópur nemenda virðist glíma við námsörðug-
leika og stundum af alvarlegu tagi. Þá virðist að þó svo að komið sé til móts við þá
lesblindu eftir að þeir hafa verið greindir beri að huga betur að nemendum með
ofvirkni og athyglisbrest.
Kvíði sem fylgifiskur námsörðugleika
Kvíði er hugtak sem oft kemur fram í viðtölunum þegar fjallað er um slakt gengi og
slæma líðan í skóla. Fram kemur að ástæður hans voru ekki aðeins námsörðugleikar
heldur einnig einelti sem þrír þátttakendur fullyrtu að þeir hefðu orðið fyrir.
Flestir þátttakenda töluðu um kvíða í prófum og í sumum tilvikum var hann mikill
og viðvarandi eins og þetta dæmi sýnir:
Ég var ofsalega hræddur við próf og svoleiðis. Bara venjuleg kaflapróf gerðu mig
kvíðinn og hræddan. Ætli það hafi ekki verið út af því að mér gekk svo illa að læra.
Þegar maður var lítill settist ég bara niður og grenjaði, ég var svo kvíðinn.