Uppeldi og menntun - 01.01.2010, Page 135
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 19(1–2)/2010 135
rannveig traUStadÓttir, Hanna BJörg SigUr JÓnSdÓttir og Helgi þÓr gUnnarSSon
er að skilningur á barnæskunni í nútímasamfélögum er undir áhrifum frá kenningum
þroskasálfræðinnar. Kenningar áhrifamikilla barnasálfræðinga, svo sem Piaget (1959)
og Erikson (1968), hafa skapað þann skilning að þroski barna felist í röð mælanlegra
þrepa í átt til fullorðinsára. Kenningar þessara frumkvöðla hafa verið gagnrýndar fyrir
að gera ekki nægilega grein fyrir áhrifum félagslegs og menningarlegs umhverfis á
þroska barna. Nýir kennismiðir, svo sem Bronfenbrenner, hafa kvatt sér hljóðs og lagt
áherslu á að manneskjur þroskist í flóknu kerfi tengsla og samskipta við fólk og um-
hverfi (Bronfenbrenner og Morris, 1998). Þrátt fyrir það er skilningur hinna klassísku
þroskakenninga lífseigur, en hann hefur gjarnan í för með sér ósveigjanleg viðmið um
hvað það er að vera „eðlilegt“ barn. Þessar kenningar hafa skilgreint mörk þess sem
er talið „frávik” frá hinu eðlilega viðmiði og þar með lagt grunn að því að skilgreina
fötluð börn sem „óeðlileg“. ýmsir fræðimenn (sjá t.d. Bloch, 2000; Priestley, 2003)
benda á að orðræðan um eðlilegan þroskaferil barna og hið eðlilega lífshlaup hafi haft
djúpstæð áhrif á líf fatlaðra barna og varpi meðal annars ljósi á það af hverju þau eru
iðulega skilgreind sem félagsleg vandamál í samfélögum nútímans.
ýmsir fræðimenn hafa orðið til þess að gagnrýna þessar hefðbundnu aðferðir til að
skilja lífshlaupið og benda á að hún sé undir sterkum áhrifum frá líffræði (Leisering og
Walker, 1998). Þrátt fyrir það telja þeir hugtakið lífshlaup vera gagnlegt til að skilja þá
félagslegu skipan sem er á lífi okkar. Í rannsókninni Börn, ungmenni og fötlun leitum við
í smiðju til gagnrýnna kenninga um lífshlaupið, ekki síst þeirra sem gagnrýna viðmið
hins eðlilega þroskaferils sem flokkar börn í eðlileg og afbrigðileg.
rannsóknin
Markmið rannsóknarinnar Börn, ungmenni og fötlun er að afla þekkingar á sjónarhorni
og skilningi barna og ungmenna á þeim þáttum sem skipta þau mestu máli í daglegu
lífi. Rannsóknin í heild er viðamikil og nær til breiðs aldurshóps. Þátttakendur voru
fötluð börn á aldrinum 6–15 ára, ungmenni á aldrinum 16–20 ára og fullorðið fólk
sem sagði frá barnæsku sinni, uppvexti og reynslunni af því að alast upp með fötlun.
Rannsóknin fór fram á árunum 2006–2010.
Í þessari grein er einungis fjallað um hluta þessarar stóru rannsóknar en hann
byggist á gögnum sem safnað var meðal tólf hreyfihamlaðra ungmenna á aldrinum
18–24 ára. Við rannsóknina var beitt eigindlegum aðferðum (Creswell, 2007; Taylor
og Bogdan, 1998) en þær henta vel þegar leitað er eftir sjónarhornum þeirra sem taka
þátt í rannsókninni og þeim skilningi sem þátttakendur leggja í líf sitt og aðstæður
(Bogdan og Biklen, 1998). Gagnasöfnun fór fram með opnum einstaklingsviðtölum og
rýnihópaviðtölum (Kvale, 1996). Auk þess voru gerðar þátttökuathuganir við ólíkar
aðstæður í lífi ungmennanna.
Þátttakendur voru allir hreyfihamlaðir en skerðingar þeirra voru með afar ólíkum
hætti, sum áttu tiltölulega auðvelt með gang og aðrar hreyfingar, önnur voru meira
hreyfihömluð og notuðu hjólastól. Þátttakendur voru valdir með aðstoð samtaka fatlaðs
fólks; auk þess bentu þátttakendur okkur á önnur fötluð ungmenni. Við nýttum okkur
einnig persónuleg tengsl til að finna þátttakendur. Flestir sem leitað var til samþykktu
þátttöku.