Uppeldi og menntun - 01.01.2010, Side 174
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 19(1–2)/2010174
Hvað ræðUr vali á námSSviði og HáSKÓla?
leggja mikla áherslu á fjarnám og það gæti endurspeglað að þeir eru meðal stærstu
fjarnemahópa HA.
Almennt leiða niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að val á háskóla er flókið fyrir-
bæri þar sem að mörgu er að hyggja. Líkt og um val á námssviði þarf að taka tillit
til kynjasjónarmiða, fjarnema, aldurs og háskólastétta í frekari rannsóknum á þessu
sviði.
Annmarkar rannsóknarinnar
Sú rannsókn sem hér er kynnt hefur þann annmarka að ná aðeins til eins háskóla á
Íslandi og einungis til tímabilsins 2004–2007. Fyrir vikið er alhæfingargildi hennar
minna en ella. Enn fremur byggir hún á svörum brautskráðra nemenda, sem svara
nokkrum árum eftir að þeir hófu háskólanám. Svörin byggjast á minni þeirra um val
á námssviði og háskóla. Svarhlutfall í könnuninni var 58,4%, sem er viðunandi, og
hún veitir margvíslegar upplýsingar sem varpa ljósi á val einstaklinga á námssviði og
háskóla. Það eykur gildi könnunarinnar að hún er að nokkru samanburðarhæf við
svipaða könnun sem gerð var árið 2000 og náði til brautskráðra nemenda við HÍ og
HA.
Frekari rannsókna er þörf á þessu sviði á Íslandi. Æskilegt væri að slík rannsókn
næði til allra háskóla á Íslandi, til nýnema sem og brautskráðra nemenda. Þá væri
æskilegt að styðjast bæði við rýnihópa og spurningalistakönnun. Mikilvægt er að slík
rannsókn sé hönnuð með það í huga að kanna áhrif á val kynja, aldurshópa, fagstétta
og staðar- og fjarnema eins og fyrr segir.
lokaorð
Þessi grein lýsir því hvað réð vali á námssviði og háskóla meðal brautskráðra nemenda
við Háskólann á Akureyri í hjúkrunarfræði, menntunarfræðum og viðskiptafræði á
tímabilinu 2004–2007. Sérstaklega var skoðað hvort munur væri á vali kynja og aldurs-
hópa og hvort munur væri á vali staðar- og fjarnema. Einnig var kannað hvort hjúkr-
unarfræðingar, kennarar og viðskiptafræðingar líti til ólíkra þátta þegar þeir velja sér
námsgrein og háskóla.
Helstu niðurstöður eru þær að þegar kemur að því að velja námssvið eru þessir
áhrifaþættir mikilvægastir: Áhugi á námsgreininni, atvinnumöguleikar í greininni,
kynni af starfsgrein, fjölbreytni náms, það að boðið var upp á fjarnám í greininni og
tekjumöguleikar. Einnig kom í ljós að munur er á svörum þátttakenda eftir því hvort
þeir eru fjar- eða staðarnemar, eldri eða yngri en 30 ára, karl eða kona og hvort þeir eru
hjúkrunarfræðingar, kennarar eða viðskiptafræðingar.
Niðurstöður leiða í ljós að þegar kom að vali á háskóla skiptu þessir þættir mestu:
Háskólinn bauð upp á áhugavert nám, gæði náms, ímynd háskólans/áhersla skólans,
boðið var upp á fjarnám og mælt var með skólanum. Búseta og stuðningur fjölskyldu
fylgja þar fast á eftir. Líkt og um val á námssviði voru svör kynja, aldurshópa, fagstétta
og fjar- og staðarnema ólík um margt.