Andvari - 01.06.2011, Page 115
andvari
113
Á HÖTTUNUM EFTIR HEMINGWAY
við m.a. James Joyce og sem hann lagði sig sjálfur eftir í Vefaranum mikla
frá Kasmír. Nú lítur hann greinilega á Hemingway sem samferðamann í hinni
„mannlegu skírskotun". Gauti Kristmannsson hefur sagt um þennan formála
að hann geti talist dæmi um það hvernig höfundar vinni með „óttann við
áhrif“ - Halldór „mislesi“ hér Hemingway á skapandi hátt í þágu eigin skáld-
skaparstefnu.23
Þá má einnig benda á að þótt orð Laxness séu formáli að þýðingu hans á
einni af smásögum Hemingways er megináhersla hans á Hemingway sem
skáldsagnahöfund - allt eins þótt sú nýsköpun Hemingways sem hann leggur
áherslu á hafi í reynd einkennt smásagnagerð hans fremur en skáldsögurnar.
En á þessum tíma er Laxness auðvitað sjálfur að vinna að því að koma skáld-
sögunni sem bókmenntaformi til vegs og virðingar á íslandi - og víst er að
hann á hvað stærstan hlut í að það gekk eftir.
Þetta er ekki sagt til að draga úr vægi Hemingways sem skáldsagnahöf-
undar. Skáldsagan hafði á þessum tíma öðlast mjög aukna virðingu sem
listrænt bókmenntaform innan enskrar tungu og víðar og Hemingway hafði
á skömmum tíma öðlast mikla viðurkenningu sem skáldsagnahöfundur
fyrir verkin The Sun Also Rises (1926) og A Farewell to Arms (1929). Þá
síðarnefndu þýddi Halldór nokkrum árum síðar og nefndi hana þá Vopnin
kvödd. í formála að þeirri þýðingu horfir hann algerlega framhjá smásögum
Hemingways og telur þær ekki með „höfuðritum“ hans er „bezt gefa hug-
niynd um manninn“. Hann segir að stíll Hemingways sé „stíll aldarandans
par excellenceíí og að varla hafi „nokkur maður átt jafn ríkan þátt sem
Hemingway í því að breyta hugmyndum rithöfunda um frásagnarlist síðustu
tíu-tólf árin.“ Hins vegar varar Halldór við því að menn reyni að skrifa eins
og Hemingway; ýmsir hafi gert sig „að viðundri á þessu“; lykilatriði sé að
„kunna að varast hann rétt, þó maður þekki hann vel.“24 Lesandi hlýtur að
spyrja sig að hve miklu leyti þessi orð eigi við um þýðinguna sem á eftir fylgir
~ en jafnframt er freistandi að sjá hér grilla í hið óttablandna mat eins rithöf-
undar á öðrum - þennan dans sem þarf að kunna að stíga, þótt jafnframt sé
vísast að varast „partnerinn".
Sterk staða rithöfunda er gjarnan vegin í áhrifum, og þótt það kunni að
virðast mælikvarði sem byggir oftar á tilfinningu fremur en raunathugun, þá
varð almælt að Hemingway hafi snemma - og einkum eftir að Farewell to
Arms birtist - haft mikil áhrif á sagnagerð samtímahöfunda og þeirra sem
mótuðust sem rithöfundar árin og áratugina þar á eftir, meðal annars á íslandi.
Ætla má að þýðing Halldórs, Vopnin kvödd, sé mikilvægur farvegur slíkra
áhrifa. Viðbrögð við þýðingunni mótuðust að vísu mjög af skiptum skoðunum
á málnotkun Halldórs Laxness, m.a. á stafsetningu hans sem sumum þótti til
lýta, bæði almennt og sérstaklega á verki Hemingways, ásamt með ýmsum
öðrum þáttum málfars. Halldór brást snarlega til varnar gagnrýninni og svar-