Uppeldi og menntun - 01.01.2012, Page 38
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(1) 201238
reynsla þriggJa grUnnskóla af fJölmenningarlegU starfi
Kennararnir í rannsókninni lögðu allir áherslu á mikilvægi samvinnu í námi nem-
enda. Í Austurbæjarskóla var áhersla á að nota CLIM-kennsluaðferðina (cooperative
learning in multicultural groups) í öllum bekkjum. Það er kennsluaðferð sem byggist á
skipulagðri samvinnu nemenda. Á veggjum skólans voru spjöld með slagorðum eins
og „Allir geta eitthvað, enginn getur allt“ sem minna á þennan þátt í skólastarfinu.
Einn kennari skólans sagði að þessi aðferð kæmi þeirri hugsun inn hjá nemendum að
þeir ættu að vera virkir þátttakendur í náminu. Undir þetta tók annar viðmælandi en
hann sagði: „Þessar aðferðir örva krakkana og gera kennsluna skemmtilega.“
Í Fellaskóla var skipulagið með svipuðu móti. Þar var mikil áhersla á markvissa
samvinnu nemenda. Þegar rannsóknin fór fram voru tvö þróunarverkefni í gangi í
Fellaskóla. Markmiðið með báðum verkefnunum var að efla lestur, orðaforða og les-
skilning um leið og nemendum var kennd glósutækni og samvinna. Með aðferðum
þróunarverkefnanna var gert ráð fyrir að auðveldara væri að kenna saman börnum
sem hefðu ólíka færni í lestri og íslensku. Einn viðmælenda í Fellaskóla sagði:
Krakkarnir eru orðnir mjög flinkir í samvinnu og mjög flinkir í því að hafa skólann
skemmtilegan og líða vel í skólanum. Þau eru að læra heilan helling en þau læra á
annan hátt.
Fram kom í máli íslensku kennaranna að þeim fannst mikilvægt að nemendur væru
ekki lokaðir inni í nýbúadeildum og lærðu bara íslensku, stærðfræði og ensku. „Mikil-
vægt er að þau missi ekki af þessum almenna fróðleik sem þau læra í greinum eins og
samfélagsfræði og náttúrufræði,“ sagði kennari í Fellaskóla. Á mið- og unglingastigi
væri verið að leggja grunn að framhaldinu í þessum greinum og „samskiptamálið
gagnast þeim ekki eitt og sér við námið þegar þau koma í framhaldsskóla,“ sagði
kennarinn.
Í Lamptonskóla stunduðu nemendur nám með sínum jafnöldrum og fengu stuðning
við námið og enskuna í ensku sem öðru máli. Kennarinn sem sá um þá kennslu sagði
að nemendur yrðu að fá tækifæri til að vera með jafnöldrum, að öðrum kosti væri bara
verið að stuðla að einangrun nemenda. Þegar nemendur af erlendum uppruna koma
í skólann sagðist hann safna bakgrunnsupplýsingum um þá áður en hann skipulegði
kennsluna. Hann sagðist flokka nemendur í fjóra aðalflokka og vinna með þá út frá
þessum flokkum. Í fyrsta flokknum eru nemendur sem kunna ekki ensku og hafa ekki
reynslu af skólum. Í öðrum flokknum eru nemendur sem eru læsir á sitt móðurmál en
kunna enga ensku. Í þriðja flokknum eru nemendur sem geta að einhverju marki notað
ensku við námið og í fjórða flokknum eru nemendur sem hafa hlotið hluta af menntun
sinni í enskum skólum. Sérstaka athygli vakti að hjá nemendum í fjórða flokknum
var lögð áhersla á að kennarar væru vakandi fyrir menningarbundnum skírskotunum
og útskýrðu þær fyrir nemendum. Kennarinn sem kenndi ensku sem viðbótarmál í
Lamptonskóla lagði áherslu á að kenna enskuna í gegnum efni sem verið væri að fjalla
um í bekknum þannig að nemendur byggðu upp þekkingu í námsgreinum um leið og
unnið væri með tungumálið. Hann sagðist taka mið af kennsluaðferðum sem notaðar
væru í bekknum og því væri mikilvægt að hafa samvinnu við aðra kennara nemand-
ans. Í skólanum var stefnt að því að nemendur með annað móðurmál en ensku tækju
GCSE-prófin og því fá nemendur aukna kennslu í ensku í 9. bekk.