Hugur - 01.01.2008, Síða 53
Siðferði, hugsun og ímyndunarafl
51
verið ókunnugt um. En það er ekki staðreynd um uppeldi Sókratesar af
því tagi sem Sókrates álítur að Kríton þurfi að viðurkenna.7
Og hún bætir við:
Frankena er sannfærður um það, áður en hann skoðar Kríton í raun, að
siðferðileg hugsun um tiltekin mál sé fólgin í því að fella staðreyndirnar í
málinu undir lögmál og reglur. Hann eygir ekki þann möguleika að
siðferðileg hugsun sé fólgin í því hverjar maður álítur staðreyndir málsins
vera, hvernig maður sér þær og lýsir þeim. Dæmið sem hann velur um
siðferðilega hugsun er dæmi þar sem það er býsna augljóst að ákaflega
frumleg siðferðileg hugsun er fólgin í því að lýsa staðreyndum málsins
- lýsa þeim á þann hátt að hægt sé að tengja þær við vel þekkt siðalögmál
- og fyrir því lokar hann augunum algerlega. Staðreyndir eru staðreyndir.
Sókrates segir að stryki hann úr fangelsi væri hann að svíkja loforð. Ef
það er forsenda í röksemdafærslu, og það er ekki siðferðileg meginregla,
þá hlýtur það að vera staðhæfing um staðreynd - svo par getur ekki verið
neina siðferðilega hugsun að finna.8
Diamond bendir með öðrum orðum á að lýsing Frankena á siðferðilegri hugsun
- lýsing sem margir líta á sem meira eða minna sjálfsagða - gangi ekki upp. Hið
athyglisverða við dæmið sem Frankena velur til að útlista hugmynd sína um sið-
ferðilega hugsun er einmitt sú staðreynd að dæmið gerir „býsna augljóst að ákaf-
lega frumleg siðferðileg hugsun er fólgin í því að lýsa staðreyndum málsins".
Diamond bætir því við að frumleikinn í lýsingu Sókratesar á staðreyndum sé und-
irstrikaður í samræðunni með afstöðu Krítons. Kríton botnar upphaflega ekkert í
ástæðum Sókratesar fyrir að strjúka ekki úr fangelsinu. Hann skilur ekki Sókrates
þegar hann spyr hvort hann væri ekki að gera ríkinu illt með því að flýja án þess
að hafa freistað þess að telja ríkið á að láta sig lausan. Með því að persónugera
lögin beitir Sókrates siðferðilegu ímyndunarafli með hætti sem gerir Krítoni kleift
að sjá aðstæðurnar í nýju ljósi. Kríton getur þá fyrst séð að með ákvörðun sinni er
Sókrates ekki að bregðast fjölskyldu sinni og vinum, en er á hinn bóginn trúr því
besta í sjálfum sér og samfélagi sínu. Allt fer þetta hins vegar framhjá Frankena
sem virðist álíta að lýsing staðreynda sé ekki hluti af siðferðilegri yfirvegun; þá
fyrst þegar slík lýsing hafi verið sett fram sé komið að hinni eiginlegu siðfræðilegu
vinnu, sem fólgin er í því að beita siðareglum. Þessi mynd er svo einráð í huga
Frankena að hann getur ekki séð í hugsun Sókratesar neitt annað en hana. Hann
getur ekki ímyndað sér að ímyndunaraflið skipti máli fyrir siðferðilega hugsun,
jafnvel þótt skólabókardæmið um siðferðilega hugsun sem hann velur sýni það
berlega.
Gagnrýni Diamonds á hugmyndir Frankena leiðir að minnsta kosti tvennt í ljós.
Annars vegar sýnir hún að siðferðileg sýn og ímyndunarafl eru veigamiklir þættir
7 Cora Diamond, „Missing the Adventure: Reply to Martha Nussbaum“, s. 310.
8 Sama rit, s. 310.