Uppeldi og menntun - 01.07.2014, Blaðsíða 66
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(2) 201466
erfið hegðUn nemenda
um mat kennara á umfangi erfiðrar hegðunar nemenda og samband hennar við líðan
kennara í starfi, þá einkum við einn þátt kulnunar, tilfinningaþrot (e. emotional
exhaustion).
Erfið hegðun
Hegðun telst erfið (e. challenging) ef hún hefur þráfaldlega truflandi áhrif á nám
eða samskipti barns við jafnaldra eða fullorðna (Powell, Fixsen, Dunlap, Smith og
Fox, 2007). Westling (2010) rannsakaði meðal almennra bandarískra kennara og sér-
kennara ýmsa þætti sem snúa að hegðunarerfiðleikum nemenda. Þar var hegðun
skilgreind sem „erfið“ ef hún „truflar nám, er hættuleg nemandanum eða öðrum,
veldur líkamlegum sársauka, eignatjóni eða truflar verulega skólastarf“ (bls. 50, ís-
lensk þýðing greinarhöfunda). Þá var einnig miðað við að hegðunin ætti sér oft stað
og að vandasamt væri að breyta henni til hins betra. Tilgreindar voru mismunandi
birtingarmyndir erfiðrar hegðunar í skólaumhverfinu, svo sem: mótþrói og óhlýðni,
truflun á hefðbundnu skólastarfi, líkamlegt ofbeldi, að draga sig í hlé og forðast sam-
skipti, félagslega óviðeigandi hegðun, lögbrot (til dæmis þjófnaður eða eignaspjöll) og
sjálfsörvandi eða endurteknar hreyfingar (Westling, 2010). Stundum er erfið hegðun
tengd formlegri sálfræðilegri greiningu erfiðleika á borð við þroskafrávik, röskun á
einhverfurófi, tilfinningaröskun, athyglisbrest með/án ofvirkni eða hegðunarröskun
(O’Neill o.fl., 1997) en í öðrum tilvikum sýna einstaklingar erfiða hegðun þó að þeir
séu ekki með neinar slíkar greiningar.
Á Íslandi eins og annars staðar hafa hegðunarerfiðleikar valdið kennurum og for-
eldrum talsverðum áhyggjum og var ákveðið að rannsaka hegðunarvanda í öllum
almennum grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2005–2006 (Ingvar Sigurgeirsson og
Ingibjörg Kaldalóns, 2006). Markmiðið var að kanna umfang og eðli hegðunarerfið-
leika og hvaða leiðir væru notaðar til að fást við þá. Tekin voru fjörutíu rýnihópaviðtöl
við samtals 233 stjórnendur, kennara eða aðra starfsmenn og spurningalisti var lagður
fyrir þátttakendur. Ekki var lagt upp með ákveðna skilgreiningu á „hegðunarvand-
kvæðum, heldur var skilningur viðmælenda látinn ráða för“ en oftast var rætt um
„sífellda eða endurtekna truflun í kennslustundum eða frímínútum“ (Ingvar Sigur-
geirsson og Ingibjörg Kaldalóns, 2006, bls. 16). Að mati þátttakenda áttu að jafnaði
tveir til þrír nemendur í hverjum bekk við hegðunarvandkvæði að stríða. Í rannsókn
á starfsháttum í tuttugu grunnskólum hérlendis 2009–2011 kom fram að meirihluti
skólastarfsfólks, eða þrír af hverjum fjórum, þurfti að takast á við hegðunarerfiðleika
einu sinni í viku eða oftar (Anna-Lind Pétursdóttir, 2013; Rúnar Sigþórsson, Anna-
Lind Pétursdóttir og Þóra Björk Jónsdóttir, 2014). Algengast var að kljást þyrfti við
truflandi hegðun nemenda. Aðeins einn af hverjum tíu starfsmönnum þurfti sjaldan
eða aldrei að fást við erfiða hegðun nemenda (Anna-Lind Pétursdóttir, 2013; Rúnar
Sigþórsson o.fl., 2014).