Uppeldi og menntun - 01.07.2014, Page 81
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(2) 2014 81
snæfríðUr dröfn BjörgVinsdóttir og anna- l ind PétUrsdóttir
lítill tími aflögu. Spurningalistinn var nokkuð langur og krafðist á köflum upplýsinga
sem kennarar höfðu mögulega ekki á reiðum höndum, svo sem um fjölda nemenda
með formlega greiningu. Hugsanlega voru þeir kennarar líklegri til að svara sem feng-
ust oftar við hegðunarerfiðleika, og það gæti hafa skekkt niðurstöðurnar.
Eins og fram kom starfa skólar þátttakenda eftir mismunandi stefnum eða kerfum
til að ýta undir viðeigandi hegðun nemenda. Ekki kom fram munur á umfangi erfiðr-
ar hegðunar nemenda eða tilfinningaþroti kennara eftir kerfum en áhugavert væri að
endurtaka rannsóknina með stærra úrtaki, og bæta þá jafnvel við skólum sem ekki
starfa eftir formlegu kerfi. Jafnframt væri athyglisvert að endurtaka rannsóknina með
ítarlegri mælingum á tilfinningaþroti og öðrum þáttum kulnunar og kanna hvaða
stuðning kennarar telja sig þurfa til að takast betur á við erfiða hegðun nemenda.
Einnig væri forvitnilegt að rannsaka hvaða áhrif markviss þjálfun í hegðunarstjórnun
hefði á líðan kennara og hvort slíkur stuðningur gæti dregið úr löngun þeirra til að
hætta störfum.
Niðurstöður rannsóknar sem þessarar eru mikilvægar íslensku skólasamfélagi
og gætu nýst við að bæta starfsumhverfi og líðan kennara og nemenda. Meirihluti
kennaranna í þessari rannsókn tókst á við margvíslega erfiða hegðun nánast daglega
eða oftar. Fram kom að erfið hegðun hefði töluverð neikvæð áhrif á skólastarf, þar sem
hún þótti auka streitu og álag hjá þátttakendum og trufla nám nemenda. Það að stór
hluti kennara í þessari rannsókn upplifði tilfinningaþrot og íhugaði að hætta í starfi
vegna erfiðrar hegðunar nemenda er mikið áhyggjuefni. Mikilvægt er að leita leiða til
að draga úr hegðunarerfiðleikum nemenda og álagi kennara í starfi til þess að gera
þeim betur kleift að mæta ólíkum þörfum nemenda. Slíkt væri ekki einungis nemend-
um til hagsbóta heldur einnig starfsfólki skóla og samfélaginu öllu.
AtHUgAsEMD
Höfundar færa þátttakendum í rannsókninni kærar þakkir, svo og dr. Amalíu Björns-
dóttur fyrir gagnlegar ábendingar við framkvæmd rannsóknar og yfirlestur handrits.
HEiMilDir
Amalía Björnsdóttir. (2003). Útskýringar á helstu tölfræðihugtökum. Í Sigríður Hall-
dórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstjórar), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum
í heilbrigðisvísindum (bls. 115–129). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.
Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir. (2007). Líðan kennara í starfi –
vinnugleði eða kulnun? Uppeldi og menntun, 16(1), 73–92.
Anna-Lind Pétursdóttir. (2011). Með skilning að leiðarljósi: Dregið úr langvarandi
hegðunarerfiðleikum með virknimati og stuðningsáætlunum. Uppeldi og menntun,
20(2), 121–143.