Uppeldi og menntun - 01.07.2014, Blaðsíða 112
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(2) 2014112
innsÝn í einhVerfU
kaflinn fjallar um Þróun vistunarúrræða og skólaþjónustu fyrir fötluð börn almennt og
þar er rakið hvernig áherslur í þeim málaflokki hafa breyst á undanförnum áratugum.
Þessi kafli er fróðlegur en mjög knappur; til dæmis er ekki fjallað um háskólanám sem
nemendum með einhverfu eða önnur þroskafrávik stendur nú til boða í starfstengdu
diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Í
fjórða kaflanum um sögu einhverfu, Breytingar á algengi, er sagt frá því hversu gríðar-
lega algengari einhverfa hefur orðið undanfarna áratugi, bæði hérlendis og erlendis
– og að ekkert lát virðist þar á.
Annar hluti bókarinnar, Að bera kennsl á einhverfu, fjallar um það ferli að greina rösk-
un á einhverfurófinu og hvaða þýðingu það hefur fyrir einstakling og fjölskyldu hans.
Kaflarnir eru tveir, Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur skrifar þann fyrri, Frá grun
til greiningar, og Svandís Ása Sigurjónsdóttir, sálfræðingur og skorarstjóri á fagsviði
yngri barna á Greiningarstöðinni, þann síðari, Greining. Fyrri kaflinn fjallar um fyrstu
einkennin sem foreldrar verða yfirleitt varir við og lýsa sér í seinkun á málþroska eða
frávikum í félagslegum samskiptum. Sérlega áhrifarík er tilvitnun í orð móður sem
lýsir fyrstu áhyggjum sínum af þroska barns síns. Frásögnin er mikilvæg áminning
fyrir fagfólk um að hlusta vel og bregðast ávallt við áhyggjum foreldra af þroska barna
sinna. Ræddar eru leiðir til að flýta ferlinu frá áhyggjum til greiningar til að fleiri
börn geti fengið snemmtæka íhlutun og foreldrarnir viðeigandi stuðning og ráðgjöf.
Svandís gefur yfirlit yfir það ferli við að greina einhverfu sem þykir best hérlendis og í
nágrannalöndum, það er með þverfaglegri nálgun sem felur í sér að notuð eru ítarleg
viðtöl, matskvarðar og beinar athuganir á hegðun. Kaflanum lýkur með brýningu um
að einstaklingar með einhverfu geti haft mjög ólíkar þarfir þó að þeir séu með sömu
greiningu og því sé mikilvægt að kynnast hverjum og einum vel.
Þriðji hluti bókarinnar, fjórir kaflar, fjallar um Orsakir, taugafræði og meðraskanir.
Í fyrsta kaflanum, Erfðir og áhættuþættir, skýrir Ingólfur Einarsson, barnalæknir og
sviðstjóri á fagsviði langtímaeftirfylgdar á Greiningarstöðinni, frá þeim þáttum sem
taldir eru auka líkur á einhverfu. Ljóst þykir að erfðir eigi stóran þátt í þróun ein-
hverfu þar sem líkurnar á einhverfu aukast eftir því sem skyldleiki við einstakling
með einhverfu er meiri. Þannig hefur samsvörun meðal eineggja tvíbura reynst mjög
mikil – þó ekki 100% þannig að fleiri þættir virðast vera þarna að verki. Annar kafl-
inn nefnist Taugafræðilegt sjónarhorn. Þar lýsir Ingólfur tengslum heilastarfsemi og
tiltekinna hegðunareinkenna einhverfu. Komið hefur í ljós að heili einstaklinga með
einhverfu er að ýmsu leyti frábrugðinn heila sem þroskast eðlilega en að markviss
íhlutun geti styrkt og aukið sveigjanleika tauganetsins. Í þriðja kaflanum, Meðraskanir,
lýsa Ingibjörg Bjarnadóttir barnataugalæknir, Evald Sæmundsen og Brynja Jónsdótt-
ir talmeinafræðingur erfiðleikum sem oft fylgja einhverfu og geta jafnvel haft meiri
hamlandi áhrif en einhverfueinkennin sjálf. Algengar meðraskanir einhverfu eru
þroskahömlun, athyglisbrestur með ofvirkni, kvíðaraskanir og svefnraskanir. Einkum
eru það skertur vitsmunaþroski og geðraskanir sem geta haft hvað neikvæðust áhrif á
framtíðarhorfur barna með einhverfu. Í lokakafla þessa hluta, Lyfjameðferð, segja L. Ýr
Sigurðardóttir barnalæknir og Ingibjörg Bjarnadóttir frá meðferð með lyfjum. Engin
lyf eru til við einhverfu, en lýst er hvernig hægt er að hafa áhrif á afmörkuð einkenni
eða einkenni meðraskana með ýmiss konar lyfjum.