Uppeldi og menntun - 01.07.2014, Page 116
Á móti kemur að höfundar bókarinnar eru fjölmargir og hafa fjölbreyttan bakgrunn
á sviði sálfræði, læknisfræði, þroskaþjálfafræði, félagsráðgjafar, sérkennslu, iðjuþjálf-
unar og talmeinafræði. Þeir leggja þó flestir mikla áherslu á greiningarferlið og víða
er lýst „jákvæðum“ hliðum einhverfugreiningar, svo sem mikilvægi snemmgrein-
ingar, hvernig hún getur aukið skilning á erfiðleikum og leitt til viðeigandi íhlutunar
– meðan lítið er rætt um mögulegar neikvæðar hliðar, svo sem stimplun, stríðni, ofur-
áherslu á veikleika, minni væntingar og færri tækifæri í lífinu (Lauchlan og Boyle,
2007). Gagnlegt hefði verið að reifa þá þætti til að benda fólki á þau neikvæðu áhrif
sem geta fylgt greiningu.
Mikilvægi íhlutunar
Í bókinni er mikil áhersla á líffræðilega áhrifaþætti, stundum á kostnað umfjöllunar
um aðra áhrifaþætti, svo sem kennslufræðilega íhlutun. Áhugavert hefði verið að sjá
nánari lýsingar á þeirri markvissu kennslu og þjálfun sem hægt er að beita. Í umfjöllun
um svefnvanda segir til dæmis að áður en lyfjameðferð sé reynd „eru til að byrja með
nýttar hegðunarmótandi aðferðir“(bls. 164) en ekki er lýst nánar í hverju þær felast.
Hins vegar er lýst nokkrum tegundum lyfja. Ef lesandinn vildi fletta upp „hegðunar-
mótun“ eða öðrum kennsluaðferðum þá eru engin slík hugtök í bendiskrá aftast í
bókinni. Aftur á móti eru þar fjórar vísanir í „rauðuhundafaraldur“. Góða umfjöllun
um íhlutun er þó að finna í fimmta hluta bókarinnar og þar er meðal annars gagnlegt
yfirlit yfir það hversu sterk vísindaleg rök liggja að baki mismunandi kennsluaðferð-
um. Í bókinni kemur einnig fram að menntun starfsfólks skóla á sviði einhverfu gæti
verið betri. Í því sambandi er ánægjulegt að geta þess að nýtt valnámskeið, Að mæta
sérstökum námsþörfum nemenda með einhverfu og skyldar þroskaraskanir, var í fyrsta skipti
kennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands haustið 2014. Námskeiðið er liður í því
að leiðbeina kennurum um hvernig mæta megi sérþörfum barna með einhverfu á
árangursríkan hátt.
Það er umhugsunarefni að ýmsar aðferðir sem eru notaðar í kennslu barna með
einhverfu hér á landi eru ekki gagnreyndar og hafa ekki sýnt jákvæð langtímaáhrif.
Þetta vekur upp siðferðilegar spurningar um það hverjir beri ábyrgð á vali kennslu-
aðferða fyrir börn með einhverfu hérlendis. Getur verið að slík ábyrgð sé í höndum
foreldra eða aðila sem hafa takmarkaða þekkingu á þeim gögnum sem hafa safnast
undanfarna áratugi eða skortir forsendur til að vega og meta upplýsingar um árang-
ur mismunandi aðferða? Ein reynslusaga getur vegið þungt í huga manns sem ekki
þekkir muninn á þess háttar vitnisburði og niðurstöðum víðtækra samanburðarrann-
sókna. Eins og réttilega er bent á getur það skipt sköpum fyrir framtíð barna með
einhverfu af hvaða toga íhlutunin er og því er ekki hægt annað en að taka undir það
með ritstjórunum að Embætti landlæknis þurfi að gefa út leiðbeiningar um viður-
kennt verklag við kennslu og þjálfun barna með einhverfu þannig að þau geti öll notið
þeirrar íhlutunar sem rannsóknir hafa sýnt að skili bestum langtímahorfum.
116
innsÝn í einhVerfU