Uppeldi og menntun - 01.07.2014, Page 120
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(2) 2014120
Um fagmennsKU í sKólastarfi
Höfundar átta kafla bókarinnar eru samstarfsmenn Trausta á Norðurlandi en fimm
höfundar eru „að sunnan“ eins og gjarnan er sagt norðan heiða. Höfundarnir voru
valdir út frá viðfangsefnum og rannsóknum sem tengjast helstu áherslum Trausta og
áhugamálum sem snerta skólamál, einkum fagmennsku kennara og skólastjórnenda.
Lærdómssamfélag og forysta
Tveir fyrstu kaflarnir fjalla um hugtakið lærdómssamfélag sem er tiltölulega nýtt í um-
ræðu um eflingu fagmennsku kennara og skólaþróun hér á landi. Í umfjöllun Önnu
Kristínar Sigurðardóttur um hugtakið eru hagnýtar upplýsingar og tillögur um leiðir
til að efla og styrkja lærdómssamfélag þar sem nám og árangur nemenda er megin-
markmið. Áhersla er lögð á faglega þróun í starfi kennara með dyggri forystu skóla-
stjóra, sem eru í forystu um þróun skólastarfsins. Þar er lögð rík áhersla á samstarf
kennara og skólastjórnenda sem saman mynda lærdómssamfélag. Mikilvægur hluti
kaflans er um „leiðir til að þróa og styrkja lærdómssamfélag“ (bls. 47). Þar er athyglis-
verð lýsing á því hvernig vinna má að sameiginlegri framtíðarsýn samstarfsamanna
skóla til að „stefna komist í framkvæmd og leiði til umbóta“ (bls. 47). Skýrt kemur
fram í kaflanum að tilgangur með samvinnu í lærdómssamfélagi er að markmið og
bættur árangur náist í skólastarfinu. Kemur það heim og saman við áherslu Trausta á
nemandann og nám hans sem hann vill að sé ávallt í brennidepli.
Í framhaldi af kafla Önnu Kristínar er kaflinn Einstaklingsmiðun sem markmið í lær-
dómssamfélagi. Þar greina þau Birna Svanbergsdóttir, Allyson Macdonald og Guð-
mundur Heiðar Frímannsson frá starfendarannsókn í grunnskóla hér á landi. Þar er
mjög vel útskýrt hvernig hægt var að taka fyrir ákveðið efni og innleiða í lærdóms-
samfélagi sem „stuðlaði að efldu og bættu námi“ (bls. 55). Sérstaka athygli vekur
niðurstaða úr rýnihópaviðtölum við nemendur þar sem þeir lýsa námi sínu sem mjög
„hefðbundnu“ (bls. 70–71). Þátttaka í lærdómssamfélagi er liður í breyttum áherslum
á samvinnu og fagmennsku í skólastarfi og tengist því sem Trausti Þorsteinsson nefnir
samvirka fagmennsku í fyrrnefndri bók frá 2003. Umfjöllun um rannsókn Birnu og
félaga styður vel þá skilgreiningu á hugtakinu lærdómssamfélag sem fram kemur í
kafla Önnu Kristínar. Í báðum köflunum tekst ágætlega að skilgreina þetta nýja hug-
tak í umræðu um skólamál hér á landi. Nánari umfjöllun um gildi þátttöku kennara
í lærdómssamfélagi og áhrif hennar á virkni nemenda í eigin námi og árangur hefði
gjarnan mátt vera í báðum köflunum.
Þriðji kafli ritsins er eftir Börk Hansen og fjallar um forystu og skólastarf. Hann
tengist köflunum á undan prýðilega með umfjöllun um hlutverk skólastjóra og mik-
ilvægi þeirra í skólaþróun. Einnig kemur skýrt fram að hlutverk þeirra breytist með
aukinni þátttöku í lærdómssamfélagi og auknum tengslum við kennara og samvinnu
við þá svo og dreifingu á forystu, en hvort tveggja stuðlar að framförum og bættum
árangri í skólastarfi. Í skrifum Barkar kemur vel fram að hlutverk skólastjórnenda
hefur á síðustu árum þróast frá því að þeir sinni að mestu ytri ramma skólastarfs eða
kerfinu eins og það er kallað yfir í aukna þátttöku í innra starfi skóla, til dæmis með
skipulagningu á faglegri ráðgjöf kennurum til handa (bls. 88–89). Segja má að sam-
svörun sé á milli breytts hlutverks skólastjóra hvað varðar samvinnu við kennara og