Tímarit Máls og menningar - 01.07.1946, Side 16
126
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
síns til lýðveldiskosnínganna. Þótt menn væru ólíkir að skoðun og
skaplyndi, og lifðu við mismunandi kjör, hafði hver og einn talið
það helga og ófrávíkjanlega skyldu sína að greiða lýðveldinu at-
kvæði sitt. Þar í sveitinni var fyrirhuguð mikil reið á Þíngvöll lýð-
veldisdaginn. Og þegar ég spurði gamla prestinn hvort hann mundi
ríða með þeim svaraði hann því til að af því gæti ekki orðið hversu
feginn sem hann vildi. Hann kvaðst eiga skyldum að gegna heima
í sókn sinni. Síðan sagði liann mér hvernig stundaskrá hann hefði
gert sér lýðveldisdaginn. Ef ég man rétt ætlaði hann að hefja dag-
inn með því að semja skipulagsskrá framfarasjóðs fyrir sveitina
sína. Hann hafði tjáð nágrönnum sínum að kirkja hjá sér mundi
verða opin þennan dag, og stundu fyrir hádegi ætlaði hann að fram-
bera þar þakkargjörð fyrir að guðinn skyldi af himni sínuin hafa
litið niður til þessarar litlu þjóðar og reist hana upp. Síðari hluta
dagsins ætlaði hann að vitja nokkurra sóknarbarna sinna, sem
átt höfðu sinn þátt í stofnun íslenska lýðveldisins, en lítinn kost
hins að halda fagnaðarhátíðina. Ég man hann sagðist ætla að vitja
níræðrar konu og blinds manns, sem bæði höfðu kosið lýðveldið;
því saga þjóðarinnar lifði einnig í brjóstum þeirra örvasa og blindu,
hinna óþektu, gleymdu og týndu manna í krókum og kimum þjóð-
félagsins; og meðan hinir hraustu og glöðu og frægu fögnuðu í
birtunni ætlaði þessi gamli prestur að gánga á fund þeirra sem
bjuggu í myrkrinu og fagna með þeim.
*
Það er erfitt að trúa því að nokkur sá maður sem heyrði litlu
klukkuna í Þíngvallakirkju hríngja 17. júní 1944 geti hugsað sér
að afhenda sjálfstæði landsins aftur nú, tæpum tveim árum eftir að
við höfum fullheimt það á ný. Jafnótrúlegt virðist að þjóðin geti nú,
á öðru ári lýðveldisins, skipað sér í flokka um þetta mál, annarsveg-
ar þeir sem vilja vera Íslendíngar, hinsvegar þeir sem vilja afhenda
landið. Ég get ekki skilið að sá maður vilji heita Íslendíngur sem
vill gera ísland að hernaðarstöð útlends ríkis. Þann dag sem ísland
afhendist útlendu ríki sem herstöð er það ekki leingur ísland og
vér ekki leingur Islendingar. Þann dag erum vér orðnir aðeins in-
ventar útlends stríðsvirkis. Allir ærlegir Íslendíngar mundu heldur