Tímarit Máls og menningar - 01.07.1946, Síða 66
176
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
vitfirringa og jafnvel dauðvona fólk upp úr rúmum sínum, eins
og dæmin sanna til dæmis úr kosningabaráttunni í Reykjavík und-
anfarin ár, þar sem fyrir hefur komið oftar en einu sinni, að slíkir
kjósendur hafi gefið upp öndina í höndum kosningasmalanna ann-
að hvort nýbúnir að greiða atkvæði sitt eða þá áður en þeim entist
aldur til þess, svo að hlutaðeigandi lýðræðisflokkur varð þar af
eftirsóttu atkvæði. Þegar kosningabarátta harðnar, verður hún í
megineðli sínu barátta um atkvæði þess fólks, sem lítilsigldast er í
pólitískum efnum, áhugaminnst og verst að sér, fólks sem oft og
tíðum er jafnvel nákvæmlega sama, hver úrslit mundu verða og ætti
því að fá að hagnýta sér í friði þann lýðræðisrétt sinn að sitja
heima á kjördag (því smölun þessa fólks á kjörstað með mútum
eða þvílíkum aðferðum felur sízt af öllu í sér neitt stjórnmálaupp-
eldi því til handa). Brezki þingmaðurinn William Gallacher segir
sögu af nokkrum rosknum Englendingum á sumarferðalagi, sem
voru þeirrar skoðunar í septembermánuði 1945, að Lloyd heitinn
George væri ennþá forsætisráðherra í Bretlandi, og höfðu ekki hug-
boð um kosningasigur og valdatöku Verkamannaflokksins í sínu
eigin landi, og danski rithöfundurinn Poul Henningsen skýrir í
blaðinu „Politiken“ frá skoðanakönnun, sem fram fór á Jótlandi í
fyrra, þar sem í Ijós kom, að tíu hundraðshlutar þeirra, er skoð-
anakönnunin náði til, vissu ekki, að Stauning væri dauður, og
héldu, að hann væri enn við stjórn í Danmörku. í hverju borgara-
lýðræðisþjóðfélagi er til sægur slíkra kjósenda eða annarra, sem
eru að minnsta kosti ekki mjög miklu fróðari um stjórnmál og þjóð-
félagsmálefni, en einmitt þeir kjósendur ráða að jafnaði úrslitum
í borgaralýðræðislegum kosningum og þá auðvitað í þágu þeirra
flokka, sem mest hafa af fjármagni og hvers konar áróðurs- og
kosningasmölunartækjum. Sígilt dæmi um þetta eru úrslit bæjar-
stjórnarkosninganna í Reykjavík á síðast liðnum vetri, og væri
fróðlegt til skilnings á eðli „lýðræðiskosninga“ í borgaraþjóðfélagi,
ef einhver vildi rita nákvæma sögu þeirra.