Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Page 65
Innan og utan viö krosshliðið
Mörgum kann að finnast að Álfgrímur eldri hafi þegið býsna
marga drætti frá höfundi bókarinnar, Halldóri Laxness. Það má vel
vera rétt. Hins vegar skiptir það voða litlu máli. Það sem máli skiptir
er hvort hin innbyggða höfundarafstaða verksins, söguhöfundurinn,
og Álfgrímur eldri, sögumaðurinn, eru sammála um mat og skilning
á sögunni. Eg fæ ekki betur séð en söguhöfundur vinni með
sögumanni og viðhorf þeirra falli saman. Álfgrímur eldri er þannig
ekki íronísk persóna, en það er augljóst íronískt misræmi á milli
reynslu og mannþekkingar hans annars vegar og Álfgríms yngra
hins vegar.
Þetta íroníska misræmi gerir kröfu til lesanda um að hann lesi vel,
geri sér grein fyrir því að ekki er allt sem sýnist — hvorki innan né
utan við krosshliðið. Og víkjum nú að Álfgrími yngra og því
hvernig hann skilur atburðina sem sagt er frá í bókinni.
Alfgrímur yngri
Eitt megineinkenni Álfgríms yngra í Brekkukoti er dæmalaust
hrekkleysi hans:
Þó má vel vera að menn hafi skopast að mér meira en ég vissi um, en
ég var svo viðbragðsheimskur þegar ég var únglíngur, að ég skildi
ekki kerskni fyr en það var orðin illkerskni eða opinn hrekkur; og
varla einusinni þó svo væri.(142)
Sakleysi Álfgríms er bein afleiðing af uppeldi hans í Brekkukoti.
Þar eru orðin of dýr til að eyða þeim í gálaust hjal, kerskni eða lygar.
Þar að auki er það ófrávíkjanlegt boðorð í Brekkukoti að menn eigi
ekki að hnýsast í einkamál náungans heldur beri mönnum að virða
rétt hans til að haga lífi sínu eins og honum sýnist. Forvitni og
þjófnaður eru þar af leiðandi sambærileg brot í augum Brekkukots-
fólksins (sbr.104).
Vegna þessa er Álfgrími fyrirmunað að sjá hvar fiskur liggur
undir steini í samskiptum manna utan við krosshliðið í Brekkukoti.
Það að fara með ósannindi er alvarleg ásökun í hans augum, og gruni
hann að fólk fari ekki með rétt mál kemur siðfræði Brekkukots strax
í veg fyrir frekari eftirgrennslanir um þau mál.
183