Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Page 90
Tímarit Mdls og menningar
sem manneskju og konu, er andvaka með henni í myrkri næturinnar sem
gerir alla jafna (121), þjáist og gleðst með henni. Hann upplifir tilfinningar
hennar til Arnalds með henni, og þegar hin „sálfræðilega og félagsfræðilega“
skýring er gefin á Arnaldi eins og Arni orðar það, þá er hún sprottin úr
hugsun Sölku Völku, ekki komin frá hinum íroníska sögumanni (378—9).
Þessi sögumaður leggur frá upphafi áherslu á díalektíkkina í fari Arnalds.
Hann er ekki einhlítur heldur síbreytilegur: „Eins rökvís og ræða hans
hafði verið um kvöldið, eins tilviljunarkent var fas hans að morgni“.(306)
Sögumanni er í mun frá fyrstu tíð að koma því að hvað Arnaldur er
ósvífinn áróðursmaður — eins og þegar hann hefur haldið langa tölu yfir
Sölku um sífilis kaupmannsdótturinnar og prentsmiðjur auðvaldsins, þá
segir: „Hann lét staðar numið í róginum og horfði á hvað hún var stór og
sterk“. (309) Salka veltir fyrir sér andstæðunum í fari hans aftur og aftur,
það er hennar hollasta lexía ásamt hugmyndum hans um annars konar líf.
Með aðstæðunum gefur hann höggstað á sér og um leið fer Salka að hugsa sjálf.
Eftir að ástir takast með Sölku og Arnaldi má svo heita að fyrri
sögumaður, sá íroníski, hverfi úr frásögninni og láti sögumann Sölku einan
um frásögnina. Þá verður Arnaldur uppalandi Sölku í fullu starfi, því hún á
að verða sá maður sem Halldór Laxness vildi gera úr íslenskri alþýðu. Það
má ekki gleyma því að þetta er „pólitísk ástarsaga".
Það er ólík frásagnartækni sem veldur ólíkum myndum af Arnaldi í
sögunni, ekki það að afstaða höfundar til hans taki grundvallarbreytingum.
Arnaldur er ögrandi persóna frá því hann kemur fyrst fram í sögunni,
öðruvísi en annað fólk bæði í augum Sölku og annarra. Hann er upp-
reisnarmaður í öllu gildismati og stendur aldrei í stað. Einmitt þess vegna
er hann hollur samfélagi Oseyrar og Sölku Völku.
Nú hefur lengi verið rætt um Arnald og mál að snúa sér að Sölku sjálfri
og þeirri óbeit sem Árna finnst Arnaldur (og höfundur?) hafa á henni.
Er Salka Ijót?
Sölku Völku er lýst hvað eftir annað í bókinni, fyrst strax í fyrsta kafla þar
sem lýsingin endar svona: „allur líkaminn ólgaði af óstýrilátu fjöri.“ (10)
Framarlega í seinna bindi sögunnar stillir sögumaður sér upp við hlið
Jóhannes Bogesens og horfir á stúlkuna þaðan (244):
. . .hún var á hæð við gervilegan karlmann, baröxluð og réttvaxin, barmur-
inn hveldur undir ullarpeysunni. Hár hennar ljóst og þykt var klipt uppí
miðjum hnakka og skift í vánganum, augu hennar skær og djörf, kjálkarnir
sterkir og karskir, varirnar ríkar og dálítið stórgerðar, hendurnar stórar og
vinnulegar, röddin í dýpra lagi, full af eiginleikum.
208