Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Síða 13
Nicolds Guillén
gerður að miðstjómarmanni. Næstu árin tók hann virkan þátt í stjórn-
málalífi Kúbu, var m. a. frambjóðandi í borgarstjórakosningum í Cam-
aguey 1940. Hann varð ekki borgarstjóri, en borgarstjórnin gerði hann
að heiðursborgara eða „eftirlætissyni Camaguey". Eftir heimsstyrj-
öldina síðari fór hann á flakk, ferðaðist um Suður-Ameríku í rúm tvö ár
og síðan um Evrópu. Til Sovétríkjanna kom hann í fyrsta sinn 1949, en
þangað hefur hann oft farið síðan, m. a. í desember 1954 þegar hann
veitti viðtöku friðarverðlaunum Stalíns, einsog þau hétu þá.
Það var ekki heigium hent að vera yfirlýstur og virkur kommúnisti á
Kúbu fyrir byltingu, og Guillén fór ekki varhluta af ofsóknum, varð
t. d. að mæta fyrir rétt nokkrum sinnum og jafnvel dúsa í fangelsi,
aldrei þó lengi í einu. 1952 versnaði ástandið í landinu að mun vegna
valdatöku Batista og þar kom að skáldinu varð ólíft heima hjá sér
einsog svo mörgum öðrum kúbönskum mennta- og iistamönnum.
Hann flúði því land og dvaldist erlendis, lengstaf í Evrópu, þar til 23.
janúar 1959. Þá sneri hann heim og var fagnað ákaflega af skeggjuðum
byltingarmönnum Fidels Castro. Síðan hefur hann þjónað byltingunni
af miklu kappi, verið einn ötulasti talsmaður hennar í ljóðum sínum og
gegnt forystuhlutverki í samtökum kúbanskra rithöfunda. Það yrði of
langt mál að telja upp allar þær virðingarstöður sem hann hefur gegnt
og gegnir enn, og allar þær orður og viðurkenningar sem hann hefur
fengið, bæði heima og erlendis.
Hér hefur verið leitast við að svara í stuttu máli spurningunni: hver
er Nicolás Guillén? Best verður spurningunni að sjálfsögðu svarað með
tilvísun í Ijóðin hans, þau segja það sem segja þarf. Þessi áttræði múlatti
með skelmisblik í auga, hvatvís orðhákur gagnvart óvinum byltingar-
innar og alþýðlegt ljúfmenni þegar til hans leita synir og dætur þess
fólks sem hann hefur verið að lofsyngja og hvetja til dáða í hálfa öld, er
ekki sestur í helgan stein. Hann hefur fengist við að skrifa endurminn-
ingar sínar síðustu árin, og hafa kaflar úr þeim birst í tímaritum á Kúbu,
lifandi og skemmtileg frásögn af viðburðaríkum ferli þar sem við sögu
koma margir af helstu andans mönnum samtímans.
507