Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Síða 11
Stableysur, góðar og illar
Með þessum ærslaleik er Aristofanes að segja sem svo að „þetta stríði
gegn mannlegu eðli“ og margir hafa þann steininn klappað síðan. Einna
áhrifamest úr röðum skálda hefur orðið rödd Fjodors Dostoévskís, sem
svaraði „Hvað ber að gera?“ með „Minnisblöðum úr undirheimum",
(Zapiski iz podpolja) sem út kom 1864, ári síðar en bjartsýnissaga Tsherni-
shevskís. Sagan er grimm sjálfskrufning manns, sem hefur nautn af að
niðurlægja sjálfan sig og aðra með herfilegum hætti og um leið árás á þær
hugmyndir sósíalista og annarra framfarasinna, að hægt sé að koma á góðu
mannlífi sem skynsamlegu kerfi, byggðu á því sem er öllum fyrir bestu.
Maðurinn er ekki þannig, segir Dostoévskí með sögumanni sínum (hugsun-
in er ítrekuð í öðrum verkum hans) — hann vill hafa frelsi til að gera það sem
honum sýnist, eins þótt það sé sannanlega rangt og óhagstætt honum
sjálfum:4)
Eg er ekki að mæla með þjáningunni og reyndar ekki vellíðan heldur. Eg
stend með — eigin duttlungum, ég vil eiga þá tryggða ef þörf krefur. Þjáningin
er til dæmis ekki leyfð í revíum veit ég vel. Hún er líka óhugsandi í
krystalshöllinni: þjáningin er efi og neitun og hvaða krystalshöll er það
svosem að í henni sé hægt að efast? Undireins er ég viss um að maðurinn mun
aldrei hafna raunverulegri þjáningu, það er að segja tortímingu og ringulreið.
Því þjáningin er eina forsenda vitundarinnar.
Krystalshöllin vísar beint til „Hvað ber að gera?“, sem um þær mundir
hafði miklu sterkari áhrif á uppvaxandi kynslóð en allt sem Dostoévskí
hafði skrifað. Svar Dostoévskís sem í Minnisblöðunum er gefið með
óbeinum hætti er kristilegt: manninum er ofviða að „skipuleggja" sér
hamingju hér á jörðu, hann verður að treysta á guðs náð.
En það var ekki barasta mannskilningur höfunda á borð við hinn
rússneska jöfur sem nálægt aldamótum skapar skáldsögur sem einu nafni
mætti nefna neikvœðar staðleysur, antiútópíur, lýsingar á þjóðfélögum sem
eru miklu verri en þau sem höfundur þekkir úr samtíð sinni. I raun og veru
eiga bæði góðar og illar staðleysur sér sömu rætur. Uggvekjandi þjóðfélags-
leg þróun og óttinn við að tæknin leiði til bölvunar getur eins skapað fallega
draumsýn um þjóðfélag þar sem allur vandi er leystur (Bellamy, Morris) og
hrollvekju um framtíð sem hefur séð illan grun rætast. Gott dæmi er
„Tímavélin“ (The Time Machine) eftir H.G. Wells. Sú saga kom út 1895 og
er haft fyrir satt að hún sé fyrsta rækilega útfærða lýsingin á framtíð sem er
miklu verri en samtíðin.
H.G. Wells smíðar vél til skyndiferðalaga í tímanum, sem ótal smærri og
stærri spámenn hafa síðar leikið sér að í geimsögum. Fyrsti áfangi ferðarinn-
ar er eftir nokkur hundruð þúsund ár. Nútímamaður hittir þá fyrir á
i
241