Tímarit Máls og menningar - 01.06.1997, Blaðsíða 8
Wislawa Szymborska
Skáldið og heimurinn
Ávarp á Nóbelshátíð 7. desember 1996
Það er sagt að fyrsta setningin sé sú erfiðasta þegar halda skal ræðu. Ef
sú er raunin er hið erfiðasta þegar að baki. . . En ég finn á mér að
næstu setningar verða einnig erfiðar, hin þriðja, sú sjötta, tíunda og
allt fram að hinni síðustu, vegna þess að það er ljóðlist sem ég ætla að tala
um. Um það efni hef ég mjög sjaldan tjáð mig, næstum aldrei. Mér hefur
ekki fundist ég vera sérlega góð í því að tala um skáldskap yfirleitt. Þess vegna
verður ávarp mitt hér ekki langt. Ófullkomleikinn er ætíð skárri sé hann
borinn fram í smærri skömmtum.
Skáld samtímans er efahyggjumaður í eðli sínu, næstum tortryggið - ekki
síst gagnvart sjálfú sér. Mót vilja sínum kallar það sig skáld opinberlega, líkt
og það skammist sín svolítið fyrir. En á okkar háværa tímaskeiði er miklu
auðveldara að standa undir göllum sínum og vankunnáttu, bara að setja þá
fram á áhrifaríkan hátt, en ennþá erfiðara að gangast við kostum sínum sem
liggja duldir dýpra og maður getur sjálfur varla alveg trúað á ... Sé skáldið
spurt, eða tali við fólk sem það hittir og það neytt til að tala um hvað það sé
að fást við, þá svarar skáldið svolítið lágróma að það „skrifí“, eða þá það
nefnir einhverja vinnu sem það hefur við hliðina á skáldskapnum. Og þegar
spyrjendurnir, eða samferðamennirnir í strætisvagninum, fá að vita að þeir
eru að tala við skáld, bregðast þeir við með eins konar blöndu af óöryggi og
tortryggni. Ég býst við að heimspekingur gæti valdið sams konar viðbrögð-
um. En staða heimspekingsins er að því leyti skárri, að hann getur skerpt á
heiti sínu með akademískum titli. Prófessor í heimspeki hljómar mun
ábyrgðarfyllra en skáld.
Prófessorar í ljóðagerð eru hins vegar ekki til. Það myndi nefnilega þýða
að verið væri að tala um starf sem krefðist sérnáms, tiltekinna prófa, fræði-
legra ritgerða með rækilegum skrám og svo loks skírteinis til þess að taka á
móti við hátíðlega athöfn. Sem jafnframt fæli í sér að blöðin með öllum
sæmilegu ljóðunum nægðu ekki til að kallast skáld - nei, fyrst og fremst þyrfti
minna blað, stimplað. Við minnumst þess að það var einmitt á slíkum
forsendum sem stolt rússneskrar ljóðlistar og síðarmeir Nóbelsverðlauna-
hafi, Jósep Brodskí, var dæmdur til útlegðar. Hann kallaðist „sníkjudýr“,
6
TMM 1997:2