Tímarit Máls og menningar - 01.06.1997, Blaðsíða 24
Jón Yngvi Jóhannsson
Skáldsaga skiptir um ríkisfang
Um Fyrirgefningu syndanna á tveimur tungumálum
Forspjall
í þessari grein eru til umræðu tvö verk, Fyrirgefning syndannaJ skáldsaga
eftir Ólaf Jóhann Ólafsson sem kom út í Reykjavík árið 1991 og Absolution,2
skáldsaga á ensku eftir sama höfund sem kom út í New York árið 1994, og í
London ári seinna. Greinin er að mestu byggð á samanburði og greiningu
þessara verka. Einhverjum kann að finnast það undarlegt að tala hér um tvö
verk, því eins og lesendur væntanlega vita er síðarnefhda bókin þýðing
þeirrar fyrri. Ég sé hins vegar ekki annað en fyllsta ástæða sé til að gera
þennan greinarmun, þar sem munurinn er meiri en almennt gerist á milli
þýðingar og frumtexta, a.m.k. nú á dögum. Útgáfa Absolution á erlendri
grund hefur vakið töluverða athygli hér heima. Því er forvitnilegt að kanna
hvernig staðið hefur verið að henni, og hvaða breytingar hafa orðið á stíl
sögunar og þáttum í formgerð hennar. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir
mér er að komast að því hvers vegna slíkur munur er á bókunum tveimur,
og hvernig hann tengist því umhverfi sem þær eru gefnar út í eða „bók-
menntakerfunum“ tveimur, því íslenska, og þó kannski enn frekar því
engilsaxneska.
Bókmenntir og bókmenntakerfi
Bókmenntir verða ekki til í tómarúmi frekar en önnur mannanna verk.
Bækur eru skrifaðar af einhverjum fyrir einhverja. Þær verða til og eru til í
samhengi við þjóðfélag, aðrar bókmenntir, og síðast en ekki síst við lesendur
sína. Sérhvert bókmenntaverk ber þannig í sér einhvern lesanda, er skrifað
með mögulegar niðurstöður hans og túlkanir í huga.
Kannski eru mótandi áhrif lesenda á bækur hvergi jafn augljós og í
þýðingum. Hlutverk þýðanda er ekki bara að snúa texta af einu tungumáli
á annað með vélrænni aðferð, hlutverk hans er ekki síður að flytja textann
inn í nýtt menningarumhverfi, skrifa hann inn í nýtt bókmenntakerfi. Sá sem
þýðir t.d. á íslensku úr framandi máli og framandi menningarumhverfi getur
ekki litið framhjá því að aðstæður lesenda þýðingar og frumtexta eru ger-
22
TMM 1997:2