Tímarit Máls og menningar - 01.06.1997, Blaðsíða 84
GUÐBERGUR BERGSSON
léttgeggjaðir á afsláttarlyfjum, af sannfæringarkrafti sem nálgast trúarof-
stæki landbúnaðarráðherra sem er víxlaður í hugsun hvað varðar hlutverk
sitt.
Það er einhvern veginn þannig að sjaldan fer saman hófstillt viðhorf til
manns og náttúru, síst í okkar heimshluta, þar sem eingyðistrú og eðli
skoðanakanna félagsvísindastofnana ríkir í gegnum síma. í vísindum þeirra
má hinn rannsakaði aðeins segja „já“ eða „nei“, þ.e. gefa afdráttarlaust svar.
Þó er honum líka frjálst að svara ekki, að segja hvorki „já“ né „nei“, hafa enga
hugmynd. En hann má ekki hafa aðra skoðun í skoðanakönnun en þá sem
einkennist af tvenns konar vali á vissu. Félagsvísindin eru byggð á þessu í
heimi þar sem ríkir „annað hvort eða“. Maður er annað hvort með eða á
móti. Ef hugmyndirnar eru einhvers staðar þar á milli er hann talinn vera
annað hvort skoðanalaus eða þá hættulegur úrkynjaður ræfill sem getur átt
það á samviskunni að hafa komið til valda, t.d. í stjórnmálum, erkióvini sem
gæti eytt manninum og náttúrunni með neikvæðri sprengju, í staðinn fyrir
að nota jákvæða og eyða hinum neikvæðu og ranglátu með sprengjunni sem
á að vera lífsnauðsynleg fyrir mannkynið. Nú hugsa menn ekki lengur bara
um það að bjarga mömmu og pabba og kannski kærustunni um leið, hugsun
og bjargráð flestra eru af sömu mælieiningu og mannkynið. Menn vilja ekki
taka neitt minna upp í sig en alheiminn, tali þeir á annað borð. Allir vilja
vera gæddir alheimsvænni samúð. Á engu heimili er lengur móðir sem sér
bara um barnið sitt, í staðinn eru alheimsmömmur úti um allar jarðir í
hlutastarfi við að bjarga börnum heimsins. Og við höfum eignast alnetsvæna
pabba á heimsmarkaði. Þetta eigum við að þakka þýska skáldinu Goethe sem
boðaði samruna manns og náttúru og fann upp orðið heimsbókmenntir án
þess að vita hvað það merkir; orðið sem slíkt var vænlegt til að mynda
hugsunarlíki við aukna notkun.
Á þessari öld hefur maðurinn ekki verið látinn lýsa sér í dýpt híbýla sinna
eða trúarinnar á guð handan við heiminn, heldur í því sem kallað er
stjórnmál, eða öðru fremur í trúarlega þætti þeirra, þeim atriðum stjórnvisk-
unnar þar sem við tökum frumstæða afstöðu, annað hvort með eða á móti
í daglegri könnun, ekki á hjörtum og nýrum, eins og segir í kristinni trú,
heldur athugun á því hvað kunni að vera í buddunni, þó lifum við oftast á
loforðum stjórnmálaflokka eða manna sem eru taldir frelsarar þjóðanna á
meðan þeir ríkja en einræðisherrar að falli loknu. Á þessari öld hefur varla
nokkur maður hugsað samkvæmt eðli sínu, sjálfstætt í raun og veru, að þeim
undanskildum, sem hafa hugsað fyrir sig og allan heiminn um leið. Aðrir
hafa hvorki hugsað sem frjáls vitsmunavera né maður sem stendur eða fellur
í sínu andlega umhverfi og dvelur þar með sinni náttúrulegu tilfinningu
færðri í persónulegt form.
82
TMM 1997:2