Tímarit Máls og menningar - 01.06.1997, Page 100
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
til hvers íslensk tunga dugir í umræðu um bókmenntir og hvar hana þrýtur
örendið, svo að nauðsynlegt reynist að grípa til annarra tungumála. Útlend
orð sem rithöfundurinn stráir eins og rúsínum í málgrautinn eru þessi:
absúrditet, bissniss, „case closed", exótískur, form, forma (s.), klever,
konkret, lúksus, materíal, mentalítet, mínimalt, módern, núans („í
núönsum"), plan („á mörgum plönum"), praktískur, prívat, prójekt,
prósi, rútína, sitúasjón, statísk, textamassi, tildragelsi, trix.
Og þess utan er náttúrlega smákeimur af dönskum og enskum málilmi:
Margt sem kemur fram í bókinni er nokkuð sem hún heyrði talað.
Þú kemur ferskur að hlutunum, en um leið kanntu ekki að gera þetta
af því að þú hefur aldrei gert það áður.
Annaðhvort væri! „Það sér það líklega á mér að ég er sigldur“, sagði doktor-
inn.
Viðtal það sem hér hefur verið gert að umtalsefni birtist í tímariti sem hefur
þann metnað að kenna sig við mál og menningu. Ef til vill felst metnaður
þessa tímarits meðal annars í því að gera íslenska tungu hæfa til umræðu um
bókmenntir með því að leita fanga í öðrum tungumálum og þó einkanlega
dönsku.
í þessu greinarkorni hef ég með vilja hvorki nefnt nafn bókmenntafræð-
ingsins né rithöfundarins. Því hef ég sleppt vegna þess að nöfn þeirra koma
málinu ekki við, og ég hygg að málfar þeirra sé á engan hátt frábrugðið því
sem gengur og gerist hjá íslenskum bókmenntafræðingum og rithöfundum
um þessar mundir. Það er málfarið sem er til athugunar, ekki nafngreind
manneskja sem talar þetta mál.
Aftanmálsgreinar
1 Þórbergur Þórðarson. Ofvitinn. önnur útgáfa endurskoðuð. Reykjavík. Mál og menning
1964, bls.270.
2 Alexanders saga [.. . Finnur Jónsson). Kaupmannahöfn 1925, bls. 68.
3 Halldór Kiljan Laxness. Heimsljós II. Önnur útgáfa. Helgafell. Reykjavík 1955, bls. 316.
4 „Grænlandsför 1897“ eftir Helga Pétursson, bls. 109 í Um Grœtiland aðfornu og nýju eftir
Finn Jónsson og Helga Pétursson. Kaupmannahöfn 1899.
5 Jón Eyþórsson: Árbók Ferðafélags íslands 1964, bls. 119.
6 Sama rit, bls. 120.
7 Halldór Laxness: Grikklandsárið. Helgafell. Reykjavík 1980, bls. 181.
8 Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1995, bls. 60.
98
TMM 1997:2