Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 43
43
Það þýðir ekki að þær hafi ekki verið misnotaðar.“50 Hér á landi kom-
ust fræði Bass og Davis í fréttirnar eftir að Elín Hirst gaf út viðtalsbók
við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur haustið 2011. Guðrún Ebba studdist við
bókina The Courage to Heal þegar hún rifjaði upp á fimmtugsaldri meinta
kynferðislega misnotkun af hendi föður síns í æsku.51
Til að girða fyrir misskilning er rétt að taka strax fram að talsmenn
þessarar hreyfingar töldu að sjálfsögðu ekki að endurheimtar minningar
um misnotkun í æsku væru helber félagslegur tilbúningur. Öðru nær. Það
var kjarninn í málflutningi þeirra að slíkar minningar væru raunveruleg-
ar. Ætlaður raunveruleiki minninganna var notaður til að skýra meintan
lækningarmátt meðferðarinnar (að upprifjun lækni fólk) og til að réttlæta
skrefin sem skjólstæðingum var ráðlagt að stíga við lok meðferðar (að ásaka
og lögsækja meinta gerendur).52 Dæmið virðist því við fyrstu sýn ekki geta
þjónað mínum tilgangi. En við nánari athugun kemur í ljós skyldleiki við
málflutning þeirra sem telja minningar félagslegan tilbúning. Eitt er að
bæði ráðgjafarnir sem grófu upp bældar minningar og kennismiðirnir sem
settu fram tilgátuna um minningar sem félagslegan tilbúning virðast leggja
svipaða þekkingarfræðilega afarkosti til grundvallar málflutningi sínum.
Þetta er augljósara með kennismiðina. Þeir stilla oft upp eftirfarandi
afarkostum: Annaðhvort getum við fangað veruleikann eins og hann var
(veruleikann í sjálfum sér) eða við verðum að gangast við því að minningar
eru félagslegur tilbúningur, sem ekki er í neinum tengslum við veruleikann
eins og hann var. Samkvæmt þessari þekkingarfræði þarf maður að búa
yfir ofurmannlegum hæfileikum til að nema veruleikann eins og hann var.
Mannshugurinn yrði þá raunar að virka eins og einhvers konar ofur-vídeó-
myndavél. Kennismiðirnir hafna réttilega þeirri hugmynd um mannshug-
ann og álykta því að minningar séu helber félagslegur tilbúningur.
Ráðgjafarnir sem störfuðu í anda hreyfingarinnar um bældar minningar
virðast hafa samþykkt svipaða afarkosti. Þeir höfðu að vísu ekki áhyggjur af
„veruleikanum í sjálfum sér“ en umgengust bælda misnotkun nánast eins
og kennismiðirnir umgengust hinn óþekkjanlega veruleika. Þeir vöktu,
oft réttilega, athygli á því hve vonlítið væri að fá staðfestingu á því sem
gerst hefði inni á einkaheimilum fyrir árum eða jafnvel áratugum, iðulega í
50 Ellen Bass og Laura Davis, The Courage to Heal. A Guide for Women Survivors of
Child Sexual Abuse, London: Vermilion, 2002, bls. 81.
51 Sjá Elín Hirst, Ekki líta undan. Saga Guðrúnar Ebbu dóttur Ólafs Skúlasonar biskups,
Reykjavík: JPV útgáfa, 2011, bls. 175, 178.
52 Ellen Bass og Laura Davis, The Courage to Heal, bls. 133–148.
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR