Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 174
174
í október árið 2000, í kirkjugarði Ísfirðinga. Í tilefni þess að minningarreitnum
var fundinn staður sagði sr. Magnús Erlingsson sóknarprestur:
Það er gríðarlega mikilvægt fyrir aðstandendur að eiga einhvern stað til
að koma á og minnast ástvina sinna og geta lagt þar blóm eða kveikt á
kerti. Áður var þetta þannig að margir lögðu leið sína að styttu nokk-
urri við eina af aðalgötum bæjarins, en hún hafði verið reist til minn-
ingar um sjómenn, og var fólk gjarna að leggja þar blóm og annað til að
minnast ástvina sinna. Slíkur staður, við fjölfarna götu, hentar þó ekki
í þessum tilgangi og hefur nýi minningarreiturinn uppfyllt þessa þörf á
nýjan og betri hátt.36
Það er því ljóst að ef minnismerki eiga að virka, þá getur staðsetning skipt
höfuðmáli. Eins og James E. Young bendir réttilega á, hljóta öll minnismerki
að kallast á við það rými sem þau eru reist í og standa í beinum eða óbeinum
tengslum við aðra staði í nágrenninu.37
Minnismerki eru alls staðar en um leið hvergi, sýnilega ósýnileg
Löngu áður en Spilverk þjóðanna söng um stytturnar, sagði Robert Musil: „Það
er ekkert í heiminum jafn ósýnilegt og minnisvarðar.“ Í umfjöllun um orð
Musils vísar Andreas Huyssen til áðurnefndrar minnissprengju, hann segir:
„Því fleiri minnisvarðar sem fyrirfinnast, því ósýnilegri verður fortíðin, því
auðveldara verður að gleyma.“38 Það sem felst í þessum orðum er meðal ann-
ars að minnismerki binda fortíðina, loka lifandi frásögnum (eins og munn-
legri geymd), eru leið til að losa um, eða losna við, minningar. Jafnframt má
greina undirliggjandi mótsögn allra minningarferla, mótun minninga felur
alltaf í sér að eitthvað er skilið eftir. Út frá frægum orðum Theodors Adorno
segir Huyssen: „Enga minnisvarða eftir Auschwitz“, og vísar þar til þess að
slík minnismerki reyni að skýra hið ólýsanlega, tákna það sem ekki er hægt að
tákna, gleymi því sem ekki má gleyma.39 Í víðara samhengi má segja að kvik-
mynd af atburði komi ekki aðeins í stað minninga, heldur fangi hún atburð-
inn aðeins frá tilteknu sjónarhorni, allt sem er utan rammans gleymist. Orð
Huyssens um að minnisvarðar stuðli að gleymsku ber með öðrum orðum ekki
að skilja sem svo að minnismerki séu reist í þeim tilgangi að gleyma, heldur
að gleymska sé óhjákvæmileg afleiðing þess að minnismerki rísi. Minnismerki
eru alltaf mótsagnakennd, tákn um varanleika en um leið boðberar eyðingar,
merki minnis mörkuð af gleymsku.
Ketill Kristinsson
36 „Minningarreitur í Ísafjarðarkirkjugarði“, Bautasteinn 1/2002, sjá einnig: http://
www.kgsi.is/bautast8/minn_isafj.htm.
37 James E. Young, Texture of Memory, bls. 7.
38 Andreas Huyssen, „Monumental Seduction“, bls. 193.
39 Andreas Huyssen, „Minnisvarðar og helfararminni á fjölmiðlaöld“, bls. 219.
KetiLL KRistinsson