Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 6
6
þjóðtungna og kallar á stöðuga endurnýjun og uppbyggingu tungumáls-
ins í gegnum þýðingar. Gauti telur því að íslenskunni stafi meiri hætta af
ofmetnaði Íslendinga heldur en af Evrópusambandinu: Íslendingar telji
sig hafa það góð tök á ensku að þeir þurfi almennt ekki túlka. Það yrði því
íslenskunni og sjálfsmynd Íslendinga til góðs að landið væri hluti af ESB
þar sem íslenskan nyti sömu virðingar og stuðnings og aðrar þjóðtungur.
En það er fleira en þjóðtunga og fáni sem mynda sjálfsmynd þjóðríkja.
Einstaklingar geta líka átt mikilvægan þátt í að móta þjóðarvitund landa
sinna og það með ýmsu móti eins og Jón Karl Helgason bendir á í grein
sinni um menningarlega þjóðardýrlinga Evrópu. Þar fjallar hann um tvö
19. aldar skáld, Hans Christian Andersen, sem er Íslendingum að góðu
kunnur, og France Prešeren frá Slóveníu. Ólíkt trúarlegum dýrlingum
er minningu þjóðardýrlinga haldið uppi af opinberum stofnunum en í
kringum þá hafa mótast félagslegar helgiathafnir sem eru að mörgu leyti
sambærilegar við þær trúarlegu. Jón Karl leitar í smiðju ísraelska menn-
ingarfræðingsins itamars Even-Zohar og segir frá því hvernig leifar af lífi
skáldanna hafa orðið þáttur í samfélagslegum helgisiðum og hvaða hlut-
verki þeir gegna í því sem kalla má þjóðernislega menningarstefnu eða
menningarlega þjóðernisstefnu þar sem menningin er í senn verðmæti –
afurðir, minnismerki, söfn – og hugmyndafræðilegt verkfæri.
Staða mannsins í heiminum og ólíkar hugmyndir um guðdóminn er
viðfangsefni Sólveigar önnu Bóasdóttur. Grein Sólveigar önnu er fyrsta
grein heftisins utan Evrópuþemans en höfundur tekur upp þráð loftslags-
umræðunnar sem áður hefur ratað inn á síður Ritsins og fléttar hann lofts-
lagsbreytingum innan kristinnar guðfræði. Hefur hinn vestræni maður
farið verr með náttúruna en tíðkast annars staðar í veröldinni og ef svo
er, hver er ástæðan? Fölsk sjálfsmynd, einstaklingsmiðaður guðsskilning-
ur? Hér er sjónum beint að framlagi femíníska vistguðfræðingsins Sallie
McFague og því guðfræðilega líkani sem hún hefur sett fram og byggir á
því að líta á guðdóminn sem lífskraft, en ekki alvitran og allsráðandi per-
sónulegan alvald. Sú sýn geti verið framlag guðfræðinnar til þess að bjarga
náttúrunni frá eyðileggingu.
Í grein Erlu Erlendsdóttur er farið á flakk um álfur, lönd og tungu-
mál. Hér er sagt frá landafundum Spánverja og frásögnum landkönnuða
af ferðalögum, náttúru og íbúum nýrrar álfu. Bréf þeirra og önnur skrif
áttu ríkan þátt í að móta hugmyndir – og ranghugmyndir – Evrópubúa um
Nýja heiminn og nutu sum hver mikilla vinsælda. Erla segir frá þýðing-
ÁSDÍS R. MAGNúSDÓTTiR OG ÞRöSTUR HELGASON