Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 10
10
Goðsagan um Evrópu – Fönikía og Krít
Evrópa er grískt orð sem merkir breiða ásjónu eða andlit. Elsta dæmið um
notkun þess sem sérnafns mun vera á læk sem var við véfréttina í Dodona í
Epírus, en finna má örnefni skyld því víða á meginlandi Grikklands.2 Ætla
má að upphaflega hafi Evrópa verið gyðja í trúarbrögðum Pelasga, það er
þeirra sem byggðu Grikkland á undan Akkeum, og ýmsar vísbendingar
eru til sem tengja þessa gyðju við helgidýrkun í Dodona. Þar var einnig
til karlkyns goðið Euryope sem rann að lokum saman við Seif.3 Í elstu
heimildum merkir hugtakið meginland Grikklands gagnstætt eyjunum á
Eyjahafi.4
Vísað er til goðsagnar um Evrópu í elstu varðveittu hetjuljóðum Grikkja,
sem eignuð eru hinum fornu höfuðskáldum Hómer og Hesíodosi.5 Í varð-
veittu kvæði um uppruna guðanna telur Hesíodos Evrópu meðal afkvæma
guðsins Okeanosar.6 Þau voru sett skör lægra en Ólympsguðir í stigveldi
grískrar goðafræði. Þessi hugmynd virðist hafa notið nokkurrar hylli. Í
riti fræðimannsins Androns frá Halikarnassos frá 4. öld f.Kr. eru nefndar
fjórar dætur Okeanosar, Asía, Lybía, Evrópa og Þraike. Tengingin við lönd
heimsins er greinileg en þó virðist fremur vísað til smærri landa heldur en
2 Hesiod, Theogony, útg. Martin L. West, Oxford: Clarendon Press, 1966, bls. 266–
267. Sjá einnig Peter H. Gommers, Europe. What‘s in a Name?, Leuven: Leuven
University Press, 2001, bls. 52, sem bendir á að „Europa was a quite popular name
in ancient Greece“.
3 Peter H. Gommers, Europe. What’s in a Name?, bls. 37–57. Dodona var helgistað-
ur „hinna ágætu Pelasga“ sem svo eru nefndir í Ilíonskviðu (sjá Fyrsta og ønnur
[–tuttugasta og fjórda] bók af Homeri Odyssea, þýð. Sveinbjörn Egilsson, Bessastaðir:
Bessastaðaskóli, 1829, bls. 46), en deilt er um hvort þeir voru forverar Grikkja eða
hvort þeir töluðu tungumál utan hinnar indó-evrópsku málafjölskyldu. Sjá meðal
annars Gilbert Murray, The Rise of the Greek Epic, New york: Oxford University
Press, 1960, bls. 43; Erich S. Gruen, Rethinking the Other in Antiquity, Princeton:
Princeton University Press, 2010, bls. 236–242.
4 Sjá Denys Hay, Europe: The Emergence of an Idea, Edinburgh: Edinburgh University
Press, 1968 [1957], bls. 2.
5 Hesíodos mun hafa verið uppi einhvern tíma á milli 750 og 650 f.Kr; sjá Martin L.
West, „Prolegomena“, í Hesiod, Theogony, bls. 1–107, hér bls. 40. Hómerskviður
munu vera nokkru yngri í sinni varðveittu mynd (en sennilega eldri að stofni til),
frá 6. eða 7. öld f.Kr. Sjá Jan Paul Crielaard, „Homer, History and Archaeology:
Some remarks on the Date of the Homeric World“, Homeric Questions: Essays in
Philology, Ancient History and Archaeology, ritstj. J.P. Crielaard, Amsterdam: Stichting
Archeologische School der Nederlanden te Athene, 1995, bls. 201–288.
6 Hesiod, Theogony, bls. 125.
SVERRiR JAKOBSSON