Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Qupperneq 11
11
heimshluta. Elstu heimildir um hugtakið Asíu í grískum heimildum gera
til dæmis ráð fyrir að það sé land sem lúti einum konungi.7
Í Ilíonskviðu Hómers er Evrópa ekki nefnd en þó er þar vísað í dóttur
Fönix konungs sem ól Seifi Mínos og hinn goðumlíka Rhadamanþys.8 Sú
sögn er til í broti sem mun vera úr öðru riti eftir Hesíodos, Kvennaskrá
(Γυναικῶν Κατάλογος).9 Samkvæmt þessari sögn var Evrópa dóttir kon-
ungsins Fönix. Seifur brá sér í nautslíki og rændi Evrópu og flutti hana
til álfunnar sem fékk nafn hennar. Síðan nauðgaði hann henni og voru
synir þeirra Mínos, Rhadamanþys og Sarpedon. Eftir það var hún gift
Asteriosi konungi á Krít.10 Nafn Fönix virðist vísa til Fönikíu fyrir botni
Miðjarðarhafsins (þar sem nú er Líbanon) en það svæði er þó ekki nefnt í
þessum elstu heimildum.
Kunnasta endursögn goðsagnarinnar um Evrópu er í hinu latneska
epíska kvæði Ummyndanir (Metamorphoses) eftir Publius Ovidius Naso (43
f.Kr. – 17 e.Kr.). Evrópa er þar sögð dóttir Agenors, konungs í borginni
Tyros í Fönikíu. Seifur í nautslíki rændi henni og meðal sona hennar var
Mínos sem síðar varð konungur á Krít. Sá „sonur Evrópu“ kemur einnig
töluvert við sögu í Ummyndunum.11 Ekki er ljóst hversu forn sú birtingar-
mynd sögunnar er sem finna má í kvæði Ovidiusar en einhvern tíma frá
því á 7. öld f.Kr. hefur Fönix breyst í Agenor. Þá virðist staðsetningin í
Fönikíu vera allforn og má ætla af sagnaritum frá 5. öld að hún hafi þá
þegar verið hluti af sögunni.
Þegar á 5. öld hafði sagnaritarinn Heródótos skýrt söguna um brott-
nám Evrópu frá Fönikíu sem táknsögu. Kríteyingar hefðu rænt Evrópu
sem lið í verslunardeilu. Taldi Heródótos að Trójumenn hefðu rænt
Helenu, eigin konu Menelásar konungs í Spörtu, í hefndarskyni og tengdi
þannig söguna um brottnám Evrópu við goðsögnina um Trójustríðið. Að
7 Sama rit, bls. 266–267.
8 Homer, The Iliad, ritstj. Walter Leaf, Cambridge: Cambridge University Press,
2010 [1888], ii, Bók 13–24, bls. 189.
9 Sjá Gynaikōn Katalogos und Megalai Ēhoiai. Ein Kommentar zu den Fragmenten zweier
hesiodeischer Epen, ritstj. Martina Hirschberger, München: Saur, 2004, bls. 115–116
og 308–312.
10 Sú sögn er ekki nefnd í Kvennaskrá heldur í skýringargreinum við Hómerskviðu, sbr.
Gynaikōn Katalogos, bls. 309. Í brotinu sem er varðveitt er einungis Rhadamanþys
nefndur af sonum Evrópu en þó tekið fram að þeir hafi verið þrír, sbr. Gynaikōn
Katalogos, bls. 310–311.
11 P. Ovidi Nasonis Metamorphoses, ritstj. Richard J. Tarrant, Oxford: Clarendon Press,
2004, bls. 62–63 og 216.
HUGMyNDiN UM EVRÓPU FyRiR 1800