Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Síða 22
22
Evrópumiðjaða heimsmynd heldur tóku ýmsir aðrir höfundar undir á svip-
uðum tíma og gagnrýndu bæði yfirgang Evrópumanna í öðrum heimshlut-
um og hugmyndir þeirra um eigin yfirburði.53 Einkum var það uppgötvun
nýrra heimsálfa, Ástralíu og Suðurskautslandsins, sem vakti umræðu um
eyðinguna sem landnám Evrópumanna í nýjum löndum hefði valdið, ekki
síst í Ameríku.
Niðurstöður
Hugmyndin um Evrópu sem eina af þremur heimsálfum er eitt af fram-
lögum Grikkja til heimsmenningarinnar en byggir ekki á landfræðileg-
um veruleika. Í raun er Evrópa skagi út úr hinu mikla meginlandi Asíu.
Þrískipting heimsins í Evrópu, Asíu og Afríku verður til vegna kring-
umstæðna sem voru ríkjandi við Eyjahafið fyrir 2500 árum. Andstæðurnar
Evrópa og Asía mótast í stríði milli Grikkja og Persa á 5. öld f.Kr., en
hersigrar Alexanders mikla á 4. öld f.Kr. drógu úr vægi slíkrar tvíhyggju
og hún bærði ekki á sér um aldabil. Frá Hebreum kom hins vegar hug-
myndin um þrískiptingu þjóða heimsins sem væru þó allar ættaðar frá
Nóa. Þar var ekki miðað við heimsálfurnar þrjár, að minnsta kosti ekki fyrr
en myndin af deilingu þjóðanna tók að einfaldast í meðförum kristinna
lærdómsmanna á miðöldum.
Á miðöldum höfðu heimsálfurnar lítið vægi sem hluti af sjálfsmynd sem
hlaut að hvíla á einhverjum ímynduðum eða raunverulegum andstæðum.
Þar voru skil kristni og heiðni mun áþreifanlegri veruleiki, en með tíð og
tíma varð íslam helsta áþreifanlega andstæða kristni. Landvinningar Tyrkja
á 15. öld kölluðu þannig á viðbrögð hins kristna heims, en húmanistar sem
vöruðu við Tyrkjum gripu þá til hins klassíska hugtaks „Evrópu“ og gerðu
það að samheiti við heim kristinna manna.
Uppgötvun Ameríku um 1500 ýtti undir umræðu um heimsálfur en
jafnframt rofnaði eining kristinna manna. Í því samhengi fær hugtakið
Evrópa aftur pólitíska virkni og evrópsk sjálfsmynd tekur að mótast. Hún
hvíldi að verulegu leyti á upphöfnum hugmyndum Evrópumanna um sjálfa
sig sem æðri öðrum þjóðum, vegna árangurs í landvinningum, viðskiptum,
tækni og hvers konar vísindum. Árangurinn mætti þakka yfirburðum hins
kristna siðar yfir öðrum trúarbrögðum. Ekki voru þó allir fræðimenn sam-
53 Sjá nánar Michael Harbsmeier, „Europas opdagelse“, Europas opdagelse: Historien
om en idé, ritstj. Hans Boll-Johansen og Michael Harbsmeier, Kaupmannahöfn:
Christian Ejlers’ Forlag, 1988, bls. 82–114, hér bls. 88–94.
SVERRiR JAKOBSSON