Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 27
27
samvinna þátttökuríkjanna yrði víðtæk bæði á sviði efnahagslífs og stjórn-
mála, og hugmyndir um einhvers konar samevrópska vitund hafa aldrei
notið verulegs fylgis meðal íbúa álfunnar. Þrátt fyrir það hefur samþætting
þátttökuríkjanna aukist á undanförnum árum, og jafnframt hefur sam-
bandið tekið upp ýmis af þeim táknum og skipulagi sem einkennt hefur
þjóðríki nútímans. Þetta hefur gerst að hluta til vegna þess að samvinnan
hefur kallað á víðtækari samræmingu í reglum þátttökuríkjanna. Hér verð-
ur fjallað um þessa þróun út frá ákveðnu dæmi um samvinnu Evrópuríkja
á sviði æðri menntunar, það er svokölluðu Bologna-ferli, og verður þá
hugað sérstaklega að því hvernig yfirlýst markmið þeirra sem hrintu ferl-
inu af stað stangast oft á við niðurstöður samvinnunnar. Að síðustu verður
saga Evrópusamrunans sett í samhengi við almenna þróun í alþjóðasam-
skiptum og hvernig þau hafa haft áhrif á hugmyndir um fullveldi og ríkja-
skipan. Íslendingum er nauðsynlegt að gæta grannt að þessum málum, því
að hvort sem þjóðin ákveður að ganga í Evrópuklúbbinn eða standa utan
hans þá mun Evrópusamruninn hafa úrslitaáhrif á stöðu Íslands í heim-
inum á næstu áratugum.
Upphaf Evrópusamrunans og þjóðríkin
Í pólitískri sjálfsævisögu sinni Pour l’Europe (Fyrir Evrópu), sem kom
út árið 1963, sama árið og hann lést, lýsir franski stjórnmálamaður inn
Robert Schuman fyrstu skrefunum í því ferli sem síðar var kallað Evrópu-
samruninn.7 Upphafið rekur Schuman til óformlegs fundar sem hann – þá
utanríkisráðherra Frakklands – átti í ágústmánuði árið 1949 með Konrad
Adenauer, fyrrverandi borgarstjóra Kölnar og verðandi kanslara Vestur-
Þýskalands, í borginni Koblenz við ána Rín. Þetta var í kjölfar síðari heims-
styrjaldar og þess skipbrots evrópskrar siðmenn ingar sem styrjaldarátökin,
og þá ekki síst grimmdarverk nasista, höfðu leitt af sér. Langvarandi deilur
Þjóðverja og Frakka, fyrst um pólitíska forystu á meginlandi álfunnar og
síðar um „réttlátar“ markalínur landanna tveggja, voru ofarlega í huga
þessara tveggja stjórnmálaleiðtoga, því að átök nágrannaþjóðanna höfðu
verið einn helsti öxull ófriðar í álfunni um áratugaskeið. Á fundinum lagði
kanslarinn tilvonandi til við franska utanríkisráðherrann að Þjóðverjar og
Frakkar efndu til efnahagssamstarfs sem vísaði þjóðunum leið út úr til-
7 Ágætt yfirlit um ævi Schumans er í inngangi bókarinnar Robert Schuman. Apôtre de
l’Europe 1953–1963, ritstj. Marie-Thérèse Bitsch, Brussel: P.i.E. Peter Lang, 2010,
bls. 17–31.
EVRÓPUSAMRUNiNN OG ÞJÓÐRÍKiN