Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 34
34
ur í Bologna-ferlinu, en ein meginforsenda þess í byrjun var sú að þátt-
tökulöndin þyrftu hvorki að breyta kennsluháttum í háskólum sínum né
grundvallarskipulagi þeirra, heldur aðeins að skilgreina nám í þeim þannig
að háskólayfirvöld í öðrum löndum gætu metið árangur nemenda inn í
sín eigin kerfi. Eftir undirritun Bologna-yfirlýsingarinnar breyttust þó
smám saman viðhorfin til samræmingar evrópskra menntakerfa. Um miðj-
an síðasta áratug var þannig farið að mæla með því í ályktunum Bologna-
landanna að öll þau lönd sem þá höfðu undirritað Bologna-yfirlýsinguna
tækju upp samræmt kerfi námsgráða, með þriggja ára grunn námi, tveggja
ára meistaranámi og skipulögðu doktorsnámi, sem í flestum tilvikum er
skilgreint sem þriggja til fjögurra ára nám.26
Gagngerar breytingar hafa orðið á uppbyggingu háskóla í Evrópu á
þeim rúma áratug sem liðinn er frá undirritun Bologna-yfirlýsingarinnar
eftir því sem fleiri aðildarlandanna hafa farið að áðurnefndum ráðlegg-
ingum og tekið upp sams konar kerfi námsgráða og samræmdar reglur
um viðmið í námi.27 Róttækastar hafa breytingarnar verið í þeim lönd-
um sem fylgdu áður þýskri fyrirmynd í uppbyggingu háskólamenntunar,
en samkvæmt venju var þar litið á meistarapróf – eða ígildi þess – sem
fyrstu (og oftast einu) gráðu hvers háskólanema. Afleiðingin hefur orðið
sú að dregið hefur úr margbreytni í skipulagi evrópskra háskóla, þrátt fyrir
fögur fyrirheit um að virða hana í hvívetna. Til að forðast misskilning skal
tekið fram að sú „samræmingarárátta“ sem lesa má úr þessum breyting-
um á evrópskum háskólum verður ekki rakin til Evrópusambandsins sem
slíks, því að það átti hvorki frumkvæðið að Bologna-ferlinu né er ferlið
á forræði þess. Þá má líka benda á að sumum finnst að hér sé frekar um
„Ameríkuvæðingu“ evrópskra háskóla að ræða en „Evrópuvæðingu“, því
að þær breytingar sem Bologna-ferlið hefur boðað virðast miðaðar við
engilsaxneskar háskólahefðir fremur en þær sem mótast hafa á meginlandi
Evrópu.28 Hverju landi er líka í sjálfsvald sett hvort það fylgir forskriftum
26 Sjá t.d. A Framework for Qualifications of the European Higher Education Area. Bologna
Working Group on Qualifications Frameworks, Kaupmannahöfn: Ráðuneyti vísinda,
tækni og nýsköpunar, 2005, bls. 71–72 og Focus on the Structure of Higher Education
in Europe 2010. The Impact of the Bologna Process, Brussel: Eurydice, Education,
Audiovisual and Culture Executive Agency, 2010.
27 Sjá meðal annars Barbara M. Kehm, „The Future of the Bologna Process – The
Bologna Process of the Future“, European Journal of Education 45/2010, bls.
529–534.
28 Walter Rüegg, „Themes“, A History of the University in Europe, 4. bindi, bls. 26–30;
sjá einnig Mitchell G. Ash, „Bachelor of What, Master of Whom? The Humboldt
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON