Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Qupperneq 35
35
Bologna-ferlisins eða ekki, og ferlið sjálft nær til landa sem eru ekki í nein-
um formlegum tengslum við ESB og hafa aldrei sýnt því áhuga að ganga í
sambandið, og er Rússland þar augljóst dæmi.
Nokkuð greinileg rökleg tengsl eru þó á milli Bologna-ferlisins og þess
Evrópusamruna sem ESB stendur fyrir, enda styðst Bologna-ferlið við
– og styður við – svokallaða Lissabon-áætlun (e. Lisbon Strategy) ESB.
Sambandinu er líka mjög hugað um að efla menntasamstarf aðildarland-
anna og hreyfanleika háskólakennara og nemenda á milli landa.29 Svipuð
uppbygging háskólakerfa liðkar fyrir slíku háskólaflakki, á sama hátt og
samræmdar umferðarreglur auðvelda ferðamönnum að aka bifreiðum í
ókunnum löndum. Samstarf hefur því leitt af sér samræmingu, hvort sem
mönnum hefur líkað hún betur eða verr, sem aftur hefur dregið úr þeim
menningarlega mismun sem greinir Evrópuþjóðirnar að – og allt bendir til
þess að sú þróun haldi áfram á komandi árum.
Togstreitan um þjóðríkið
Af dæminu um evrópska menntasamstarfið má ráða að samhengið á milli
Evrópusamrunans og framtíðar þjóðríkja sé flóknara en oft er látið að
liggja þegar rætt er um kosti þess og galla fyrir Íslendinga að ganga í
Evrópusambandið. Þróun sambandsins virðist líka fremur hafa verið drifin
áfram af þeim vanda sem hugmyndin um fullvalda þjóðríki hefur skapað í
alþjóðasamskiptum á undanförnum áratugum en því að ESB í heild – eða
einstakir forystumenn þess – hafi beinlínis viljað fullveldi aðildarríkjanna
feigt. Frumforsenda fullveldis þjóðríkja er að hver þjóð skuli vera sinnar
gæfu smiður og ráða örlögum sínum sjálf á svipaðan hátt og sjálfráðir
einstaklingar, um leið og fullveldið er skilgreint sem „endanlegt og algert
vald í hinu pólitíska samfélagi“, svo vitnað sé til þekktrar skilgreiningar
breska sagnfræðingsins Francis Harrys Hinsleys.30 Í samræmi við þetta fara
Myth and Historical Transformations of Higher Education in German-Speaking
Europe and the US“, European Journal of Education 41/2006, bls. 245–267.
29 Ruth Keeling, „The Bologna Process and the Lisbon Research Agenda: the
European Commission’s expanding role in higher education discourse“, European
Journal of Education 41/2006, bls. 203–223.
30 Á frummálinu: „the term sovereignty originally and for a long time expressed
the idea there is a final and absolute authority in the political community“, F. H.
Hinsley, Sovereignty, 2. útg., Cambridge: Cambridge UP, 1986, bls. 1; John Hoff-
man, Sovereignty, Buckingham: Open UP, 1998, bls. 13–14; Eiríkur Bergmann
Einarsson, Sjálfstæð þjóð. Trylltur skríll og landráðalýður, Reykjavík: Veröld, 2011,
bls. 261–271.
EVRÓPUSAMRUNiNN OG ÞJÓÐRÍKiN