Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 36
36
stjórnvöld fullvalda ríkja með æðsta vald innan landamæra þeirra, oftast í
umboði þjóðarinnar, og eru þau þar með óháð afskiptum yfirvalda annarra
fullvalda ríkja eða alþjóðastofnana af innanríkismálum sínum.31 Þetta er
það sem enski stjórnmálafræð ingurinn David Held kallar klassískan skiln-
ing fullveldisins, en hann á rætur í skrifum franska 16. aldar lögfræðingsins
Jeans Bodins og varð að ríkjandi hugmynd í samskiptum Evrópuríkja á 17.
öld. Með breyttri ríkjaskipan og nýjum reglum í alþjóðasamskiptum á síð-
ustu áratugum hefur þessi túlkun fullveldisins fallið úr tísku, segir Held,
þótt ekki sé fullkomlega ljóst hvað leyst hefur hana af hólmi.32
Í reynd hefur fullveldi ríkja ávallt verið fremur hugsjón eða markmið
en ófrávíkjanleg regla, og hefur sú staðreynd komið sífellt betur í ljós upp
á síðkastið. Ástæðan er ekki síst sú að ekkert þjóðríki er algert eyland,
heldur lifa þau öll í margháttuðum samskiptum hvert við annað. Ef full-
veldi þjóðríkjanna væri ótakmarkað þá líktust alþjóðasamskipti helst lýs-
ingum stjórnspekinga á borð við Thomas Hobbes og John Locke á ríki
náttúrunnar (e. state of nature) áður en menn stofnuðu til ríkisvalds. Í nátt-
úruríkinu var eilíft „stríð allra gegn öllum“ (lat. statum naturæ … non esse
quàm bellum omnium contra omnes), ef marka má Hobbes33 og var líf ein-
staklinganna þar því „einmanalegt, fátæklegt, andstyggilegt, ruddalegt og
stutt“.34 Við slíkar aðstæður er einstaklingsfrelsið lítils virði og því gerðu
menn, ef marka má kenningar stjórnspekinganna, með sér samfélagssátt-
mála í árdaga til að tryggja friðinn. Svo við yfirfærum þessar hugmyndir
á alþjóðasamfélagið, þá hljóta veikburða ríki að verða auðveld bráð fyrir
hin sterkari ef þau geta ekki kallað á sterka bandamenn eða yfirþjóðlegt
vald sér til halds og trausts. Þess vegna hafa þjóðríki nútímans gert með
sér alls konar bandalög eða sáttmála, annaðhvort til að tryggja sér stuðn-
ing og vernd sterkari ríkja gegn aðsteðjandi hættum eða til þess að skapa
mótvægi við vald stórveldanna á leikvelli alþjóðastjórnmálanna. Túlka má
Evrópusamrunann sem tilraun til þess konar samfélagssáttmála, því að eins
31 Davíð Þór Björgvinsson, EESréttur og landsréttur, Reykjavík: Bókaútgáfan Codex,
2006, bls. 430–432.
32 David Held, „Law of States, Law of Peoples: Three Models of Sovereignty“, Legal
Theory 8/2002, bls. 3–5.
33 Thomas Hobbes, Elementa Philosophica De Cive, ný útgáfa, Amsterdam: Apud. H.
& Viduam Th. Boom, 1742 [1641], Præfatio ad Lectores (inngangur til lesenda
sem upphaflega var bætt við árið 1647; án blaðsíðutals).
34 Á frummálinu: „And the life of man, solitary, poore, nasty, brutish, and short“,
Thomas Hobbes, Leviathan or the Matter, Forme, and Power of Commonwealth
Ecclesiaticall and Civill, London: Andrew Crooke, 1651, i. hluti, kafli 13, bls. 62.
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON