Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Síða 40
40
er vísað til „síns heima“, og að endanlega verði skrúfað fyrir straum inn-
flytjenda til Evrópu.40 Fjölmenning er í augum þeirra ónáttúrulegt ástand,
vegna þess að aðeins í þjóðríkinu „finnur þjóðin [d. folket] fyrir náttúru-
legri samkennd“, eins og segir í Evrópustefnu eins þessara hægriflokka,
Danska þjóðarflokksins.41 Þjóðin er því líffræðilegt fremur en ímyndað
samfélag, og hún er rótföst í mold ættjarðarinnar, skilyrt af móðurmálinu
og sögulegum hefðum sínum. Það er á þeim forsendum sem fylgjendur
slíkra stjórnmálaflokka úthrópa Evrópusambandið, sem þeir segja að hafi
veikt stoðir þjóðríkjanna og flutt vald frá „fólkinu“ (eða þjóðinni) til skrif-
finnanna í Brussel.42
Skoðanir þeirra, sem teljast til vinstri á litrófi stjórnmálanna, á þjóðerni
og Evrópusambandinu eru oft furðulega líkar því sem heyrist frá hægri
hliðinni, þótt forsendur og áherslur séu gjarnan aðrar. „Það er út í hött
að ætla að setja stjórnarskrá nema fyrir þjóð, raunverulegt samfélag manna
með sömu tungu og menningu“, skrifar til að mynda sagnfræðingurinn
Einar Már Jónsson í bók sinni Bréf til Maríu.43 Af því má draga þá ályktun
að honum þyki öll önnur form ríkisvalds en þjóðríkið, þar sem saman fer
hin menningarlega þjóð og hið pólitíska ríki, dæmd til að mistakast; þau
stríði einfaldlega gegn náttúrulegri skipan heimsins. Með því er gefið í
skyn, þótt það sé ekki sagt berum orðum, að fólki sé best að halda sig
á sínum heimaslóðum, í faðmi eigin þjóðar og málsamfélags, því að ef
menningarhópar blandast um of þá hljóti hin „raunverulegu samfélög“ að
lokum að leysast upp og enda í einhvers konar fjölþjóðlegum óskapnaði.
Það kemur því ekki á óvart að bæði vinstri- og hægrimenn leita lausna
við ógnum nútímans í því sem kalla má ímyndaða fortíð, eða til þess goð-
sögulega tíma þegar þjóðin á að hafa verið hrein og staðið einhuga í barátt-
unni gegn öllu erlendu valdi. Fortíðarþrár vinstri- og hægrimanna renna
þar saman, segir þýski félagsfræðingurinn Ulrich Beck, þar sem „hinir
fyrri dásama félagslega ríkið, hinir síðari þjóðríkið“.44 Það er ekki síst í
40 Sbr. stefnu Front National í innflytjendamálum, Front National. Nos idées,
immigration: http://www.frontnational.com/?page_id=1095 [sótt 22. júlí 2011].
41 Dansk Folkeparti, EU-politik, Vi siger nej til EU-forfatningen: http://www.dansk-
folkeparti.dk/M%C3%A6rkesag-EU.asp [sótt 28. júlí 2011].
42 Ágætt yfirlit yfir skoðanir franskra öfgahægrimanna er að finna í Ariane Chebel
d’Appolonia, L’extrêmedroite en France. De Maurras à Le Pen, Brussel: Éditions
complexe, 1996 og Histoire de l’extrême droite en France, ritstj. Michel Winock.
43 Einar Már Jónsson, Bréf til Maríu, Reykjavík: Ormstunga, 2007, bls. 313 (áherslan
er mín).
44 Ulrich Beck, What is Globalization?, bls. 129.
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON