Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 42
42
sem oftast er nefnt … skynsam legar leiðir“.49 En engu að síður er hollt
að minnast þess að þótt okkur sé tamt að líta á núver andi skipan mála í
Evrópu, þar sem landamæri þjóða og ríkja eiga að falla saman, sem sjálf-
sögð örlög, þá fer því þó fjarri að hún styðjist við einhvers konar náttúru-
lega (eða guðlega) áætlun. Langflestar þjóðir Evrópu eru samsuða úr ólík-
um menningar hópum sem eiga fátt sameigin legt þegar leitað er nokkrar
aldir aftur í tímann. Þjóð ríkin hafa líka fæst orðið til vegna sjálfsprottinna
krafna þjóða um sjálfstæði eða fullveldi, heldur hafa þau í flestum tilvikum
búið þjóðirnar til úr ósamstæðum hópum þegna sem eiga sér ólíkan upp-
runa og töluðu ólík tungumál eða mállýskur ekki alls fyrir löngu.50 Það er
því ekkert í eðli hlut anna sem segir að við getum ekki raðað mósaíkmynd
þjóðarbrota í Evrópu upp á einhvern allt annan hátt en við gerum nú.
Það sem helst vinnur gegn slíkri þróun er sennilega það að við eigum
erfitt með að ímynda okkur annað þjóðskipulag en það sem við búum við
nú. Allt frá því að byltingarmenn í Frakklandi höfnuðu hugmyndinni um
sambandsríkið undir lok 18. aldar og ákváðu þess í stað að stofna miðstýrt
lýðveldi,51 þar sem ekkert vald eða valdastofnun stæði á milli þegna og
ríkis, hefur hugmyndin um hið ódeilanlega fullveldi verið ríkjandi í flest-
um löndum Evrópu. Þetta er reyndar ævagömul hugmynd, sem á rætur í
skrifum stjórnspekinga einveldis, en hún komst ekki í framkvæmd fyrr en
með lýðræðinu og flutningi fullveldisins frá konungum til þjóðanna. Þegar
Íslendingar horfa á Evrópusambandið sýnist þeim mörgum það einmitt
vera einhvers konar útvíkkað lýðveldi að franskri fyrirmynd, fjarlægt og
miðstýrt frá Brussel – og því hentar tungutak sjálfstæðisbaráttunnar, þar
sem Brussel er sett í staðinn fyrir Kaupmannahöfn, prýðilega til þess að
andmæla þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum.52
Hugmyndin um miðstýrt Evrópusamband er þó tæplega til nema sem
49 Norbert Elias, La société des individus, París: Fayard, 1991, bls. 285–286.
50 Sjá T. K. Oommen, Citizenship, Nationality and Ethnicity, Cambridge: Polity Press,
1997, bls. 135–159.
51 Um það, sjá istvan Hont, „The Permanent Crisis of a Divided Mankind: ‚Con-
temporary Crisis of the Nation State‘ in Historical Perspective“, Political studies
42: supplement 1, 1994, bls. 166–231 og Geneviève Koubi, „La « gestion » de
la diversité culturelle en France“, La constellation des appartenances. Nationalisme,
libéralisme et pluralisme, ritstj. Alain Dieckhoff, París: Presses de Sciences Po, 2004,
bls. 281–316.
52 Sbr. Eiríkur Bergmann Einarsson, Sjálfstæð þjóð, bls. 125–133 og víðar; Guðmundur
Hálfdanarson, „Sagan og sjálfsmynd(ir) íslenskrar þjóðar“, Glíman 7/2010, bls.
113–135.
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON