Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Qupperneq 43
43
einhvers konar „dystópísk“ martröð í hugum andstæðinga þess, einfald-
lega vegna þess að Evrópu verður vart stjórnað frá einni miðju. Stöðug
útþensla sambandsins síðustu áratugina vinnur einnig gegn áhuga manna
á sameinuðu og einsleitu evrópsku þjóðríki, og þá ekki síst stækkun þess
til austurs eftir fall járntjaldsins. Segja má að hún hafi gert endanlega út af
við drauma um evrópskt stórríki, það er ef einhvern dreymdi slíka drauma,
og hugmyndir um fulla aðild Tyrklands að ESB benda ekki til þess að
ráðamenn sambandsins hafi mikinn áhuga á að breyta því í eiginlegt ríki.53
Mun líklegra er að sambandið þróist á þann veg í framtíðinni að full-
veldi Evrópusambandsríkjanna klofni í mörg lög, þar sem ákvarðanir í
ákveðnum málum verða teknar heima í héraði, aðrar innan núverandi
þjóðríkja og enn aðrar í Brussel (eða Strassborg) fyrir sambandið allt. Í
slíkri þróun fælist aðskilnaður landsvæðis (e. territory) og borgararéttar (e.
citizenship), um leið og þau sterku tengsl sjálfsmynda (e. identities) og rík-
isvalds sem einkenna þjóðríkið heyrðu fortíðinni til.54 Þetta fyrirkomulag
græfi undan þjóðríkinu, eins og það er skilgreint nú, á tvennan hátt; vald
flyttist bæði frá höfuðborgum og þjóðþingum aðildarlandanna til yfir-
stjórnar utan þjóðríkjanna og út til héraða og héraðsstjórna inn an þeirra.
Ef þetta verður ofan á ættu Evrópubúar framtíðarinnar að geta skynjað sig
sem margt í senn, fremur en fyrst og fremst eitt – Bretónanum leyfðist til
dæmis að vera allt í senn Bretóni, Frakki og Evrópubúi, og færi það eftir
aðstæðum hverju sinni hvar hann staðsetti sig á það litróf sjálfsmynda.
Þjóðríkin geta auðveldlega lifað af slíkar breytingar, þótt eðli þeirra og
hlutverk verði annað en áður. Þess vegna hafnar kanadíski heimspekingur-
inn Will Kymlicka því að alþjóðleg samtök á borð við ESB þurfi endilega
að vera „beinlínis ábyrg gagnvart (eða aðgengileg) hverjum borgara fyrir
sig“, heldur geti ábyrgðin allt eins verið óbein því að við „ræðum á vett-
vangi þjóðríkisins hvernig við viljum að ríkisstjórnir okkar [e. our national
governments] bera sig að í alþjóðlegu samhengi“.55 Með öðrum orðum, þá
telur hann að þótt staða þjóðríkjanna taki stakkaskiptum á næstu árum þá
53 Þetta kallar breski stjórnmálafræðingurinn Paul Taylor endalok evrópskrar sam-
einingar; P. Taylor, The End of European Integration. AntiEuropeanism Examined,
London: Routledge, 2008.
54 T. K. Oommen, Citizenship, Nationality and Ethnicity; sbr. hugmyndir Davids Helds
um alþjóðlegt fullveldi (e. cosmopolitan sovereignty), „Law of States, Law of Peoples“,
bls. 23–38.
55 Will Kymlicka, Politics in the Vernacular. Nationalism, Multiculturalism, and Citizen
ship, Oxford: Oxford UP, 2001, bls. 324; sjá einnig Eric Hobsbawm, Globalisation,
Democracy and Terrorism, London: Abacus, 2008, bls. 118.
EVRÓPUSAMRUNiNN OG ÞJÓÐRÍKiN