Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 46
46
heimurinn þróast, til dæmis í umhverfismálum, og ef þeir vilja verja það
vald sem búið hefur innan fullvalda þjóðríkja en er óðum að flytjast yfir
til alþjóðlegra stórfyrirtækja, þá verða þeir að standa saman. Þetta hefur
verið leiðarljós leiðtoga flestra Evrópuríkja síðustu árin og ekkert bendir
til annars en að hugsjónin um samhuga Evrópu muni lifa af þær efnahags-
legu hremmingar sem álfan gengur í gegnum þessa mánuðina. Enn sem
komið er hefur þessi einlægi vilji til samstarfs forðað Evrópusambandinu
frá því að klofna í frumparta sína, þrátt fyrir allar hrakspár, og meðan hann
lifir hlýtur sambandið að styrkjast á kostnað þjóðríkjanna sem eiga aðild
að því.
ú T D R Á T T U R
Evrópusamruninn og þjóðríkin
Evrópusamruninn á rætur í uppgjöri Frakka og Þjóðverja vegna seinni heimsstyrj-
aldar, og vilja franskra og vesturþýskra stjórnmálamanna til að koma í veg fyrir
frekari átök á milli þjóðanna. Frá upphafi gengu frumkvöðlar samrunans út frá því
að honum væri ekki stefnt gegn þjóðernistilfinningum eða þjóðríkjum í Evrópu,
enda litu þeir svo á að þessar tilfinningar og hugmyndir um ríkjaskipulag í álfunni
væru það rótgrónar í hugum íbúanna að þeim yrði ekki útrýmt. Þrátt fyrir vilja evr-
ópskra leiðtoga til að verja fullveldi þjóðríkjanna hefur yfirþjóðlegt vald ESB þó
aukist verulega á undanförnum árum og starfsemi ýmissa stofnana í álfunni hefur
verið samræmd í auknum mæli. Þetta hefur ekki gerst fyrst og fremst vegna þess að
evrópskir forystumenn hafi viljað minnka völd þjóðríkja eða draga úr fjölbreytni í
álfunni, heldur fremur vegna þess að aukið samstarf hefur kallað á frekari samþætt-
ingu ríkjanna. Þessi þróun er að hluta til óhjákvæmileg afleiðing aukinnar samvinnu
Evrópuríkjanna, en tengist einnig hnattvæðingu og nýjum hugmyndum um fullveldi
ríkja. Ekkert bendir þó til þess að Evrópa stefni í átt til einhvers konar stórríkis,
heldur virðist álfan fremur vera á leið í átt til einhvers konar lagskiptingar fullveldis,
þar sem hluti þess verður yfirþjóðlegur, en stærstur hluti þess verður áfram innan
þjóðríkjanna.
Lykilorð: Evrópusamruninn, Evrópusambandið, Bologna-ferlið, þjóðríki, fullveldi.
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON