Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 51
51
einkum með vexti og viðgangi móðurmálanna á Vesturlöndum. Allt eru
þetta fyrirbæri sem byggja á mismun og sérstöðu, en eru í grunninn algjör-
lega sambærileg og lúta svipuðum lögmálum í hverju þjóðríki fyrir sig.
Í framhaldinu verður síðan skoðað sérstaklega hvernig málstefna
Evrópusambandsins styður við þjóðtungur aðildarríkja sinna og hvort
heimfæra megi þau áhrif á Ísland.
Veldi latínunnar og uppgangur móðurmálanna
Það er alls ekkert sjálfgefið að þjóðir fái að nota þjóðtungur sínar í opin-
beru lífi, skáldskap, stjórnsýslu og annars staðar þar sem stjórnmálalegu
og menningarlegu valdi er framfylgt. öldum saman – raunar frá því fyrir
Krists burð – var latína mikilvægasta mál Vesturlanda, fyrst í skjóli róm-
verska heimsveldisins og síðar katólsku kirkjunnar sem einnig hafði þá
sérstöðu að hún menntaði mestalla elítu í vesturhluta álfunnar á latínu.
Tungumálið var þannig lykillinn að menntun og valdi kirkjunnar þvert
yfir landamæri um aldir. Menningarlegt forræði (e. cultural hegemony) lat-
ínunnar hófst þannig með risi Rómaveldis og var við haldið af katólsku
kirkjunni fram á síðmiðaldir.
Með tíð og tíma breyttist þetta, forræði latínunnar hvarf og sú breyt-
ing umturnaði menningarlegri ásýnd Evrópu. Vissulega höfðu menn ritað
móðurmálsbókmenntir um langa hríð áður en þetta gerðist, meðal annars
hér á landi, en það voru ekki bókmenntir lærðrar elítu þess tíma, heldur
riddarasögur og annað alþýðlegt efni, eða þá bókmenntir ritaðar á málum
eins og írsku og íslensku sem voru á jaðri latneska menningarsvæðisins.
Ég skilgreini þetta svæði sem það svæði þar sem rómversk-katólsk trú og
kirkja voru ráðandi og latína í raun grundvöllur ritmenningar í mörgum
löndum Norður-Evrópu.
Sverrir Jakobsson bendir t.d. á það í Við og veröldin að það voru kirkj-
unnar menn sem mynduðu „menntaelítu klaustranna“ á Íslandi og hafn-
ar kenningu Einars Ólafs Sveinssonar um að „sumt af [meistaraverkum
íslenskra bókmennta] sé skrifað af vígðum mönnum, en þeir skrif[i] það
ekki sem vígðir menn, heldur sem synir þjóðarinnar“.7 Sverrir sýnir ein-
faldlega fram á að þau handrit „sem varðveist hafa og rituð voru fyrir 1300
eru alls 69 og er langstærstur hluti þeirra miðaður við þarfir kirkjunnar;
7 Sverrir Jakobsson, Við og veröldin, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005, bls. 53.
MÓÐURMÁLSHREyFiNGiN OG MÁLSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSiNS