Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 53
53
skapa þjóðmál fyrir bókmenntir og verður ekki annað sagt en að skáldinu
hafi lánast það eins og sjá má af Gleðileiknum guðdómlega sem telja má til
stærstu bókmenntaafreka Evrópu.
Vissulega voru móðurmálin notuð og rituð fyrir þennan tíma, eins og
áður sagði, en jafnvel hirðskáldskapur miðalda hafði ekki sama hlutverk
og stöðu og Dante gerir kröfu um í Um kveðskap á þjóðtungu. Þar notar
hann viðmið eins og Óvíð og Biblíuna og gerir í raun fræðilega grein fyrir
stöðlun þjóðtungna með það að markmiði að ýta út, að hans dómi, „ljót-
um“ mállýskum. Rök hans eru frekar fagurfræðileg en pólitísk og það
varð ekki fyrr en seinna að ráðandi mállýskur þjóðríkjanna tóku sér stöðu
„þjóðtungu“. Hugmyndin og aðferðin taka fyrst á sig fræðilega mynd í
kveri Dantes. Nicholas Ostler orðar það svo:
Þetta var upphafið að endinum á einokun latínunnar á lærðum upp-
lýsingum. Eftir þetta var ekkert svið orðræðu eða hlutverk málsins
afmarkað fyrir hana eingöngu. Latína, tungumál málfræðibókanna,
sem eitt sinn var talin eilíf, var nú talin óekta og fékk sífellt aukna
samkeppni talaðra mála sem tekið var að rita. Hún tók að deyja.12
Listi yfir sporgöngumenn Dantes er langur; á Spáni má finna Antonio de
Nebrija (1441–1522), í Frakklandi má helstan nefna Joachim du Bellay
(1522–1560), í Bretlandi Richard Mulcaster (1531–1611), í Þýskalandi
Martin Opitz (1597–1639), svo nefndir séu fulltrúar stærstu tungumála
Evrópu á endurreisnartímanum, en þeir voru langt frá því einir um skoð-
anir sínar og eignuðust einnig marga skoðanabræður sem töluðu aðrar
þjóðtungur Evrópu. Frægasti arftakinn á Íslandi er vísast Daninn Rasmus
Kristian Rask.
Síðari lykilviðburður móðurmálsvæðingar Evrópu er siðbreytingin sem
hverfðist um nýtúlkun Biblíunnar í nýjum þýðingum, ferli sem hófst þegar
með Biblíuþýðingum fylgismanna Johns Wycliffes á fjórtándu öld, en náði
nýjum hæðum í þýðingu Marteins Lúthers á þeirri sextándu.13 Sú þýð-
ing sýndi fram á áhrifa- og túlkunarmátt þjóðtungunnar í eitt skipti fyrir
12 Nicholas Ostler, Empires of the Word. A Language History of the World, London o.v.:
Harper Perennial, 2005, bls. 321.
13 Sjá nánar um Wycliffe í Britannica academic: „John Wycliffe.“ Encyclopædia Brit
annica. Encyclopædia Britannica Online Academic Edition. Sjá: http://www.britannica.
com/EBchecked/topic/650168/John-Wycliffe [sótt 10.8.2011].
MÓÐURMÁLSHREyFiNGiN OG MÁLSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSiNS