Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 54
54
öll.14 Prentverkið lék hér stórt hlutverk og hraðaði þróuninni. Marshall
McLuhan heldur því fram að prentverkið hafi með fjöldadreifingu sinni
skapað þjóðernishreyfingar nútímans með móðurmálunum og stuðlað að
stöðlun tungumála.15 Það er áreiðanlega rétt, en staðreyndin er sú að hug-
myndir um ritun á þjóðtungu eru komnar fram í verki áður en sú tækni
varð til og þróun sú sem McLuhan lýsir tók sinn tíma, því prentaðar bækur
voru framan af fáar og dýrar. Að öllum þessum þáttum metnum, hug-
myndinni um ritun á þjóðtungu, kröfunni um Biblíuna á þjóðtungunni
og útbreiðslumætti prentverksins, má halda því fram að eftir þessa atburði
hafi sigurganga móðurmálanna verið órofin fram á síðustu öld.
Með „sigurgöngu móðurmálanna“ er átt við þá mállýsku sem ofan
á varð í hverju landi eða verðandi þjóðríki, oft var það einmitt í gegn-
um biblíuþýðingarnar sem „stöðlun“ þjóðtungnanna hófst; síðar bættust
við málfræðirit (oft reyndar byggð á latneskri fyrirmynd) og orðasöfn og
-bækur. Þessi stöðlun fól einnig oft í sér að ein mállýska af mörgum varð
ráðandi og gegndi ekki ósvipuðu hlutverki „herratungu“ og þjóðtungur
valdhafa í nýlendunum, ekki síst ef fleiri en ein tunga var töluð í ríkinu.
Munurinn er hins vegar sá að bilið á milli þeirrar mállýsku sem var ráðandi
og annarra af sömu tungu var styttra en milli tveggja tungumála.
Þjóðtungur og þjóðríki
Þessi þróun í átt til móðurmálanna, stöðlunar þeirra og síðar stöðu sem
opinberra tungumála, er því bæði flókin og merkileg, ekki síst fyrir þá sök
að hún er greinilega í sterku samhengi við þróun þjóðríkja Evrópu eins og
McLuhan heldur fram um prentverkið.16 Undir lok miðalda og langt fram
eftir fyrri hluta nýaldar voru „land, þjóð og tunga“ sjaldnast „þrenning
ein“, ekki einu sinni á Íslandi, því Ísland taldist jú til annars ríkis. Þannig
voru embættismál margra ríkja oft frábrugðin tungumáli margra þegn-
anna, til dæmis var það þannig á Englandi langt fram á fjórtándu öld að
mál valdhafanna var franska á meðan mál þegnanna var enska.17
14 Málsvörn Marteins Lúthers, „Sendibréf um þýðingar“, má lesa á íslensku í Jóni á
Bægisá 14/2010, bls. 90–108.
15 Marshall McLuhan, The Gutenberg Galaxy, Toronto: Toronto UP, 1997 [1962], bls.
199, 228–229.
16 Sama rit, bls. 235–236.
17 Um þetta er fjallað í „standardverkinu“ um enska málsögu eftir Albert C. Baugh og
Thomas Cable, A History of the English Language, 3. útg., London o.v.: Routledge,
1984 [1978], bls. 107–157.
GAUTi KRiSTMANNSSON